Fara í efni

Er 13. janúar táknrænn fyrir vinnubrögð Evrópusambandsins?

Í Evrópusambandinu og þar með á hinu Evrópska efnahagssvæði, er nú hart tekist á um svokallaða Þjónustutilskipun.  Ekki þarf það að koma á óvart því tekist er á um sjálfan grundvöll velferðarþjóðfélagsins. Á 20. öldinni var grunnur velferðarsamfélagsins lagður með almannatryggingakerfi og grunnþjónustu á vegum hins opinbera; velferðarþjónustu sem var, og er, opin öllum þegnum samfélagsins. Nú vill peningavaldið markaðsvæða þessa þjónustu, færa hana undir lögmál "hins innri markaðar" Evrópusambandsins.
Fulltrúar fjármagnsins vilja ganga lengra. Samkvæmt Þjónustutilskipuninni á að gilda svokölluð "upprunalandsregla". Samkvæmt henni eiga kjarasamningar og reglur á vinnumarkaði að gilda í því landi sem fyrirtæki er upprunnið í jafnvel þótt það færi út kvíarnar annars staðar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta þýðir að ríki með slakar reglur á þessu sviði munu ógna þeim kerfum þar sem reglur og samningar eru betri.

Gróðaöflin vilja komast yfir velferðarþjónustuna

Allt er þetta réttlætt með tilvísun í Lissabon-yfirlýsingu Evrópusambandsins frá árinu 2000. Það ár var haldin mikil ráðstefna í Lissabon í Portúgal þar sem lýst var yfir að stefnt skyldi að því að gera Evrópusambandið enn samkeppnishæfara á heimsmarkaði en nú er og standa öllum heimshlutum framar í því efni! Ekkert minna átti að nægja.
Nú fóru margir að hugsa gott til glóðarinnar. Lengi hefur það verið draumur evrópskra kapítalista að komast yfir velferðarþjónustuna. Þeir vita sem er að á henni er hægt að græða vel verði hún á annað borð markaðsvædd. Fólk þarf jú að drekka vatn, fá rafmagn, afla sér menntunar og áfram verðum við veik og gömul og þurfum á aðhlynningu að halda. Með Lissabon-yfirlýsingunni þótti fjármálafólkinu tíminn upp runninn til að gera atlögu að þessu kerfi.
Fyrsta skrefið sem tekið var á vegum Stjórnarnefndar  bandalagsins (Commission) var að gefa út Græna skýrslu sem svo var nefnd. Hún kom út vorið 2003. Þar var uppleggið lagt fram og að sögn átti skýrslan að vera umræðugrunnur sem aðilum gæfist kostur á að ræða og bregðast við, ekki síst af hálfu Evrópuþingsins.

En viti menn ...

Fundur um þetta efni var boðaður 13. janúar á þessu ári. En viti menn. Sama dag birtir stjórnarnefnd Evrópusambandsins drög að Þjónustutilskipuninni , án þess að átt hafi sér stað sú umræða sem lofað hafði verið! Ekki þótti þetta bera vott um að virðing væri borin fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hvort 13. janúar sé táknrænn fyrir vinnubrögðin í Evrópusambandinu.
Í vor birtist síðan Hvít skýrsla þar sem brugðist var við athugasemdum sem þá höfðu borist, um 250 talsins. Og áfram snýst hringekjan. 11. nóvember sl. fer loksins  fram gagnrýnin rannsóknarvinna í Evrópuþinginu, svokölluð Hearing. Þar komust fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar rækilega inn á umræðuvettvanginn. Í þeim herbúðum þótti vel til takast.
Seinni hlutann í nóvember var síðan sendur út spurningalisti til vinnumálaráðherra innan ESB og þeir beðnir um að segja sitt álit á drögunum að tilskipuninni. Jafnframt var gefin út yfirlýsing um að á fyrri hluta næsta árs sé að vænta afstöðu stjórnar Evrópusambandsins.

BSRB gerir fyrirvara

Eitt er víst. Evrópuþingið hefur reynst fullkomlega vanmáttugt í viðureign sinni við fulltrúa peningahyggjunnar, sem ráða nú lögum og lofum innan stjórnarnefndar ESB. Gagnrýnin andstaða hefur hins vegar komið frá verkalýðshreyfingunni í Evrópu. Hún hefur í fyrsta skipti í langan tíma sýnt að enn rennur í henni blóðið. Hér á Íslandi hefur BSRB staðið rækilega vaktina, örvað til umræðu og upplýst fólk um málið. Í ráðgjafanefnd EFTA hefur fulltrúi BSRB haft uppi alvarlega fyrirvara og verið einn um bókun hvað þetta varðar.
Fyrir Íslendinga er þetta ekki síður alvarlegt mál en Evrópusambandsþjóðirnar því þær reglur sem verða ofan á munu gilda hér á landi sem annars staðar innan Evrópska efnahagsvæðsins.