Fara í efni

ENN SJÁUM VIÐ SPÓA

Mikil og tímabær vakning á sér nú stað um að okkur beri að vernda umhverfi okkar, hætta að framleiða og nota skaðleg efni, menga ekki andrúmsloftið og eyðileggja ekki viðkvæma nattúru.

Þessi vakning þarf að ná lengra en hún enn gerir. Þannig er gangverk lífríkisins allt meira og minna tengt, eitt leiðir þar af öðru.

Þannig gengur til dæmis ekki að halda áfram að menga en kaupa sér friðþægingu með því að gróðursetja blóm eða tré sem jafni út með súrefnismyndun koltvísýringinn sem við sendum frá okkur út í andrúmsloftið.

Í þessu samhengi þarf að hugsa til þess að gegndarlaus gróðursetning getur haft illar afleiðingar fyrir náttúrufar, þar á meðal fuglalíf.

Við munum hafa skuldbundið okkur til að vera ábyrg fyrir einum 25 tegundum fugla þar sem Ísland sjái þeim fyrir varpstöðvum að uppistöðu til. Slíkt ábyrgðarhlutverk myndist ef um fimmtungur Evrópustofns viðkomandi tegundar heldur til hér á landi.

Aðallega eru þetta sjófuglar en einnig mófuglar. Í umfjöllun á mbl. er vísað í orð Ólafs Níelsen, líffræðings um þetta efni. Þar segir m.a.: Teg­und­irn­ar sem Ólaf­ur horf­ir sér­stak­lega til vegna ábyrgðarhlut­verks Íslands eru heiðlóa, lóuþræll, spói, stelk­ur, jaðrak­an og fálki, en fimm fyrstu fugl­arn­ir eru all­ir svo­kallaðir mó­fugl­ar. Seg­ir hann að spó­ar hér á landi telji til dæm­is um 70% af Evr­ópu­stofn­in­um, en þegar horft er til ábyrgðar­teg­unda er miðað við að alla vega 20% af viðkom­andi Evr­ópu­stofni noti land til annaðhvort varps eða komi þar við á far­tím­an­um um vor og haust.”

Ólafur segir að við þurfum að gæta okkar ef við ekki ætlum að stefna þessum stofnum í hættu með því að spilla varplöndum þeirra.

Á meðal annarra líffræðinga sem hafa kvatt sér hlóðs á undanförnum dögum er Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í líffræði, sem varar við því að stórtæk gróðursetning geti dregið úr fjölbreytni lífríkisins.

Á þetta fólk verðum við að hlusta svo þessi þjóðvísa úreldist ekki með mófuglum sem nú kann að vera ógnað af mannavöldum.

Sá ég spóa suð'r í flóa,
syngur lóa út í móa.
Bí, bí, bí, bí.
Vorið er komið víst á ný.

Hvet ég lesendur til að lesa það sem er að finna á þessari slóð og þá sérstaklega viðtölin sem vísað er í: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hlustum-a-thetta-folk