Fara í efni

ENN NOKKUR ORÐ UM FUNDINN MEÐ VANESSU BEELEY

Beely Vanessa II
Beely Vanessa II

Smám saman er taugaveiklunin vegna fundarins sem efnt var til í Safnahúsinu að rjátla af fréttamönnum sem fundu því allt til foráttu að fá hingað til lands rannsóknarfréttakonu sem sögð var draga taum Sýrlandsstjórnar.

Gerði hún það?

Það má til sanns vegar færa að svo hafi verið. En þá verða menn líka að hafa heiðarleika til að bera til að setja afstöðu hennar í rétt samhengi.

Vanessa Beeley hefur minnt á þá staðreynd að Sýrland hafi verið eitt þeirra ríkja sem Bandaríkjastjórn hafði sett á lista yfir ríki þar sem þörf væri á "regime change", með örðum orðum að skipta ætti um stjórn. Slíkt þekkjum við frá Líbíu, Úkraínu og víðar. Því bæti ég við, ekki hún.

Sjálfur get ég líka bætt því við að síðastliðinn föstudag hlustaði ég á David L. Philips, sem nú stjórnar mannrétitindastofnun innan Columbia háskólans í New York og er þaulkunnur í innstu kimum bandaríska stjórnkerfisins, mikill vinur NATÓ þannig að ekki verður hann sakaður um að syndga gagnvart þeim klúbbi, lýsa því hvernig Bandaríkin bókstaflega helltu úr fjárhirslum sínum til að fjármagna hryðjuverkasveitir islamista í Sýrlandi. Öllu skyldi kostað til svo af "regime change" gæti orðið.  Síðan hafi olíugullið frá Sádí Arabíu einnig streymt til þessara leppherja til að vopna þá og halda þeim gangandi.

Og þar kemur aftur að Vanessu Beeley. Hennar málflutningur er sá að í reynd sé Sýrland þriðja heims ríki, sem orðið hafi fyrir innrás heimsvaldasinna og í þeim skilningi dregur hún taum Sýrlandsstjórnar. Og þá einnig Rússa því ef þeirra og Írana hefði ekki notið við, sýrlensku stjórninni til stuðnings, mætti ætla að sama hefði hent í Sýrlandi og í Norður-Írak, þá sérstaklega í Mósúl og víðar á þeim slóðum. Ætla má að blóðbaðið og ofsóknirnar hefðu ekki orðið minni og eru þær þó miklar.

Er Vanessa þá málpípa Sýrlendinga, Rússa og Írana? Að sjálfsögðu ekki.

Fyrir nokkrum dögum varð til eins konar bandalag Kúrda og Sýrlandsstjórnar í átökunum við innrásarher Tyrkja. Hvað stendur það bandalag lengi? Og hvað gera Rússar í framhaldinu? Þeir munu að öllum líkindum meta stöðuna taktiskt út frá sínum hernaðarhagsmunum og þá einnig hvað líklegast sé til að koma NATÓ illa.

Þarna eru margir úlfar í sauðagæru. En þarna eru líka margir sauðir eða lömb í úlfsham, meinlaust fólk sem hefur verið skrímslavætt í alþjóðafréttaveitunum.

Vanessa Beeley hefur verið iðin að fletta ofan af lygafréttum af Sýrlandsstríðinu og sama má segja um ástralska fræðimanninn Tim Anderson, sem skrifaði bókina The Dirty War on Syria, en hún er nú komin út í íslenskri þýðingu. 

Oflátungar í íslenskri fréttamannastétt eru náttúrlega löngu búnir að afgreiða Tim Anderson og segja hann málsvara Norður-Kóreu. En gæti nú verið að hann sé fyrst og fremst andstæðingur þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi sjálfdæmi um það hvar hann skiptir um ríkisstjórnir í heiminum þann daginn?

Ég hvet fólk til að panta sér eintak af þessari bók og lesa með eigin augum en láta skömmtunarstjóra ekki mata sig á innihaldinu. Ég mun setja upp auglýsingu um bókina á heimasíðu minni von bráðar.  

Viðtal um þetta efni á Sprengisandi sunnudaginn 18. mars: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP61712

Viðtal á Harmageddon í vikunni:
http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP61596

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP61595

Viðtal í Kjarnanum í vikunni: https://kjarninn.is/hladvarp/storu-malin/2018-03-16-storu-malin-og-ogmundur-tokust-harkalega-um-umdeilt-malthing-um-syrland/