Fara í efni

ENN FRAMIÐ LÖGBROT Á ÖRYRKJUM OG LÍFEYRISÞEGUM

Birtist í Mbl. 21.03.05
Grein með svipaðri fyrirsögn birtist í Morgunblaðinu fyrir réttum fimm árum, eða 24. mars árið 2000. Þá sýndi ég fram á að greiðslur almannatrygginga hækkuðu ekki samkvæmt laganna bókstaf. Einhverja bragarbót gerðu stjórnvöld á í kjölfarið enda höfðu samtök öryrkja og ellilífeyrisþega haft hátt um þessi mál.
Sama virðist mér aftur vera uppi á teningnum nú. Komið hefur fram á mjög skýran hátt í málflutningi Landssambands eldri borgara að staðtölur almannatrygginga og útreikningar kjararannsóknarnefndar leiði í ljós að upphæðir grunnlífeyris almannatrygginga og tekjutryggingar sem eru aðaltryggingabætur almannatrygginga hafi á undanförnum tíu árum lækkað verulega sem hlutfall af launum. Er þá sama hvort miðað er við lágmarkslaun, meðallaun verkafólks eða launavísitölu Hagstofu.

Kröfur Landssambands eldri borgara

Benedikt Davíðsson formaður Landssambands eldri borgara segir í skriflegu svari við erindi sem ég sendi honum að það væri grundvallarkrafa af hálfu samtaka eldri borgara  að þessir framgangreindir tveir flokkar tryggingagreiðslna verði hækkaðir verulega þannig að þeir nái a.m.k. sama hlutfalli af meðaldagvinnulaunum verkamanna í fyrsta áfanga breytinga, eins og þeir höfðu verið árið 1991. „Til þess að það megi nást,“ segir Benedikt, „ þarf grunnlífeyrinn að hækka úr kr. 21.993.- í kr. 26.699.- á mánuði og tekjutryggingin með eingreiðslum úr kr .44.909.- á mánuði í kr. 52.195.- á mánuði. Samkvæmt þessu þarf hækkun þessara tryggingabóta að nema kr. 11.990.- á mánuði til þess að halda hlutfalli frá árinu 1991. Hefðu lögin sem numin voru úr gildi 1995 sem tengdu breytingu bótanna við lágmarkslaun hinsvegar gilt er munurinn enn meiri því þá þyrfti grunnlífeyrir og tekjutrygging að hækka um rúmlega 19.000 kr á mánuði. Á sama tíma hefur skattbyrði lægri tekna aukist verulega vegna raunlækkunar skattleysismarka. Þannig greiðir sá sem hefur kr. 100.000 á mánuði í tekjur árið 2005  kr 9.400 í tekjuskatta á mánuði en greiddi ekkert af sömu rauntekjum árið 1988 þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp því þær tekjur voru þá undir skattleysismörkum. Akning skattbyrði er þá 9.400 hjá honum.“
Landssamband eldri borgara hefur hamrað á því að í fyrsta áfanga leiðréttinga á tryggingagreiðslum til samræmis við launaþróun í landinu verði ofangreindar lagfæringar gerðar á grunnlífeyri og tekjutryggingu, einnig að skerðingarhlutföll þessara greiðslna vegna annarra tekna verði lækkað verulega frá því sem nú er svo fólki sé ekki haldið eilíflega rígföstu í sömu fátæktargildrunni.

Lögin brotin

En víkjum nú að lögbroti ríkisstjórnarinnar. Þegar ríkisstjórnin rauf sambandið á milli lágmarkslauna og bótagreiðslna um miðjan tíunda áratuginn var því ákaft mótmælt af hálfu samtaka elli- og örorkulífeyrisþega og samtaka launafólks. Þótt ekki væri fallist á að koma þessum tengslum á að nýju fékkst það í gegn árið 1997 að lögfest var ákvæði sem er að finna í 65. grein almannatryggingalaga þar sem segir að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni og svo vitnað sé orðrétt í greinina þá „...skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs“.
Lítum á framkvæmd þessara laga og horfum til undangenginna missera. Hver skyldi verðlagsþróun hafa verið? Spyrjum ennfremur um launaþróunina og að lokum um hækkun bóta almannatrygginga. Nú er okkur einn vandi á höndum og hann er sá að notaðar eru mismunandi reikningsaðferðir við útreikninga af þessu tagi. Þess vegna ætla ég að bregða á það ráð að setja upp í eftirfarandi töflu útreikninga sem byggja á mismunandi forsendum:  

 

Ársmeðaltal 2003-2004 *

Hækkun frá jan. '04 – jan '05

Hækkun frá des. '03 – des. '04 *

Hækkun ellilífeyris og tekju-tryggingar með eingreiðslum

3,0 %

3,5 %

3,0 %

Vísitala neysluverðs

3,2 %

4,0 %

3,9 %

Vísitala launa

4,7 %

6,6 %

6,0 %

* Lögboðin hækkun ellilífeyris og tekjutryggingar án sérstaks samkomulags eldri borgara og ríkisstjórnar enda samningsbundið að svo skyldi vera.

Eins og hér má sjá hefur ríkisstjórnin ekki einu sinni farið að lögum gagnvart þessum aðilum á nýliðnu ári, hvað þá að nokkur tilraun hafi verið gerð til að bæta kjör þeirra og gefa þeim réttmætan hlut í margrómuðu góðæri. Hvaða vísitala sem notuð er og hvernig sem útreikningum er háttað kemur aldrei önnur niðurstaða en sú að hækkun bóta fyrir lífeyrisþegann er ætíð lægri en hækkun launavísitölu og stundum undir hækkun verðlags fyrir sama tímabil. 
Ríkisstjórnin getur ekki bæði sleppt og haldið gagnvart lífeyrisþegum. Fyrst var rofið sambandið á milli lægstu kauptaxta og almannatrygginga þegar ljóst var að stefndi í verulegar hækkanir á lægstu launum. Eftir að skorið var á þetta samband skuldbundu stjórnvöld sig með lögum að taka skuli mið af almennri verðlags- og launaþróun í landinu þegar hækkanir á greiðslum almannatrygginga voru annars vegar. Undan þessu lágmarksskilyrði getur ríkisstjórnin ekki vikið sér. Þess vegna hljótum við að reisa þá lágmarkskröfu að farið verði að lögum gagnvart öryrkjum og lífeyrisþegum.