Fara í efni

Enn einn stórsigur ríkisstjórnarinnar

Birtist í Fréttablaðinu 4. janúar
Um áramótin kom Valgerður Sverrisdóttir bankamálaráðherra fram í fjölmiðlum til að greina þjóðinni frá nýjustu sigrum ríkisstjórnarinnar. Nú var það salan á þjóðbankanum, Landsbanka Íslands, sem gladdi hjarta ráðherrans: "Þetta er stórmerkur áfangi, enda stærsta einkavæðing Íslandssögunnar." Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að á lokasprettinum hafi verið deilt um verðmæti eigna Landsbankans og hafi mikið borið í milli. Blaðamaður spyr hvort Samson-hópurinn hafi ekki beygt ríkið í þessum viðræðum. Venju samkvæmt vísar hinn sigurglaði ráðherra allri gagnrýni og efasemdum á bug en segir að orðið hafi samkomulag um ákveðin endurskoðunarákvæði. "Tilteknar eignir verða metnar seinni hluta ársins. Það ræðst svo af því mati hvort kaupverðið stendur eða lækkar. Verðið gæti lækkað um allt að 700 milljónir króna," sagði Valgerður Sverrisdóttir. Ekki má heldur gleyma því að nái S-hópurinn (þ.e.a.s. framsóknarhlutinn á helmingaskiptasamningunum um bankana) betri kjörum í samningum við ríkið um Búnaðarbankann þá þurfi að endurskoða þennan samning!

Enn er á það að líta að styrking krónunnar veldur því að kaupverð bankans hefur hrunið. Þann 18/10 sl. var samið um sölu bankans fyrir 12,3 milljarða kr. - en vel að merkja í Bandaríkjadollurum, ekki íslenskum krónum. Þetta þýðir að til þess tíma þegar endanlega var gengið frá sölunni þann 31/12 sl. hafði verðið fallið um 1,1 milljarð kr. þar sem gengið hafði á þessum tíma fallið um 9%. Þar af leiðandi breytist heildarverð fyrir bankann frá áður reiknuðum 45,8% eignarhlut á 12,3 milljarða kr. í 11,2 milljarða. M.ö.o., verðgildi bankans lækkar í kr. talið úr 26,9 milljörðum í  24,5 milljarða kr. Þetta er náttúrlega slíkt smámál í augum bankamálaráðherrans að varla er orð á gerandi.

            Þessi makalausi sölusamningur vekur ýmsar alvarlegar spurningar. Ótrúlegast er þó að talsmenn ríkisstjórnarinnar skuli leyfa sér að tala um söluna sem efnahagslegt úrræði og þá ekki síst í því samhengi að nú verði hægt að greiða niður skuldir þjóðarinnar. Þetta er sama ríkisstjórnin og nú gengst fyrir mestu skuldasöfnun í tengslum við framkvæmdir fyrr og síðar og er þar vísað í fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun. Þar munu Íslendingar takast á herðar miklar fjárskuldbindingar til að fjármagna framkvæmd sem útilokað er að komi til með að standa undir sér. En lítum aðeins nánar á þetta samhengi.

Ríkisbankarnir hafa reynst öflug og mikilvæg kjölfesta í íslensku fjármálalífi og tryggt þjónustu um allt land. Þeir hafa þannig gegnt mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Þetta er lykilatriði sem því miður alltof margir hafa misst sjónar á. Bankarnir hafa einnig reynst eigendum sínum miklar gullkýr. Arðinum hefur hins vegar einvörðungu verið varið til uppbyggingar þjónustustarfseminnar en með þeim kerfisbreytingum, sem innleiddar hafa verið með hlutafélagsvæðingunni og þeirri makalausu sölu sem nú hefur átt sér stað, verða umskipti hér á því fjárfestar ætlast að sjálfsögðu til þess að hafa arð af eignum sínum.

Hver skyldi hafa verið arðsemin af Landsbankanum á síðustu tveimur árum? Hagnaður bankans á árinu 2001 var 1.779 milljónir. Hér er vísað í hreinan hagnað eftir skatta. Á nýliðnu ári nam hagnaðurinn um 2.200 milljónum. Hagnaður eigin fjár miðað við söluverð nam 9%. Hagnaðartölur Búnaðarbankans eru svipaðar. Nú er okkur sagt að ætlunin sé að borga upp erlend lán sem að jafnaði bera um eða innan við 3% vexti á ári með því að selja banka sem gefa í það minnsta þrisvar sinnum meiri arð!

Ríkisstjórnin selur þannig arðvænlegustu eignir þjóðarinnar  og nú sem fyrr við svipaðar kringumstæður er þetta gert undir miklum sigurópum sem virðast þeim mun háværari eftir því sem ríkisstjórnin semur meira af sér.

Það er sennilega ekki að ástæðulausu að Samson-menn skuli hafa verið útnefndir bisnessmenn ársins 2002. Þeir hafa vissulega komið ár sinni vel fyrir borð. Í þessum samningum hafa þeir hins vegar ekki verið að kljást við sterkan andstæðing. Þeir hafa verið að skipta við ríkisstjórn sem jafnan semur á kostnað almennings, á kostnað þeirrar þjóðar sem fleytti henni til valda. Sigrar ríkisstjórnarinnar eru því jafnan með öfugum formerkjum. Söluna á ríkisbönkunum má með réttu kalla stærsta einkavæðingarklúður Íslandssögunnar til þessa. Og væntanlega almenningi til huggunar og ríkisstjórninni til varnar leyfa sumir fjölmiðlar sér að fullyrða að Samson-menn hafi ekki grætt krónu á gengisbreytingunum af þeirri einföldu ástæðu að þeir eigi bara dollara. Alveg sama hvernig hlutirnir æxlast þá er niðustaðan ævinlega hin sama. Ríkisstjórnin vinnur stórsigur.