Fara í efni

Enginn vill vera vondur við lítilmagnann – Af prófkjörsraunum

Það er engin ein rétt leið til að raða frambjóðendum á lista fyrir kosningar. Ég er ekki í vafa um að heppilegast er– ef um það getur skapast friður – að raða frambjóðendum upp á lista sem síðan er borinn undir atkvæða félagsfundar eða annarrar samkomu eftir atvikum. Með þessu móti er á markvissan hátt hægt að stilla upp merkisberum þeirra stefnumála sem stjórnmálaflokkur berst fyrir. Hægt er að taka tillit til kynjaskiptingar, aldurs, búsetu og annarra þátta sem skipta máli til þess að skapa eðlilega breidd í liðsheildina. Þessi nálgun byggir á tilraun til samkomulags. Sú aðferðafræði er hins vegar ekki alltaf fær einfaldlega vegna þess að margir frambjóðendur eru reiðubúnir að berjast af hörku um sömu sætin á framboðslistunum. Þá þarf að leita annarra lausna og prófkjör verða oftast fyrir valinu.

Það færist í vöxt að hafa prófkjörin lokuð, einvörðungu fyrir flokksmenn eða þá einstaklinga sem eru reiðubúinr að undirrita skuldbindingu um að þeir muni hugsa hlýlega til flokksins á kjördag. Tilhneigingin, einkum í smærri flokkum, til að loka prófkjörunum helst í hendur við viðleitni til að draga úr auglýsingakostnaði: Því færri þátttakendur og því meira sem vitað er um hópinn – þeim mun auðveldara er að nálgast hann án peningaausturs.

Jakob og spörfuglarnir

Sá ágæti maður, Jakob Frímann Magnússon, sem um margt var kraftmikill og skemmtilegur frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík hafði greinilega ekki fyllilega áttað sig á hve fámennur markhópurinn var orðinn. Auglýsingar hans voru sem fallbyssur á spörfugla, vopnabúnaðurinn í engu samræmi við bráðina og þar að auki reyndust fuglarnir ekkert á því að láta skjóta á sig. Auglýsingarnar höfðu þess vegna ekki tilætluð áhrif.

Af þeim leiðum sem reyndar hafa verið til að auka lýðræðislega þátttöku í vali á lista þykir mér mjög athyglisverð sú leið sem Framsóknarflokkurinn fór í Norðvesturkjördæmi, og læt ég niðurstöðuna úr nýafstöðnu vali liggja á milli hluta.

Snjöll aðferð framsóknarmanna

Þessi aðferð byggir á því að kalla saman fjölmennt þing sem síðan kýs frambjóðendur á listann hvern á fætur öðrum. Fyrst er kosið í fyrsta sætið og síðan koll af kolli. Kjósendur hafa því góðar forsendur til að velja menn neðar á listann með hliðsjón af þeim einstaklingum sem þegar hafa valist hafa ofar. Þannig geta þátttakendur í kosningunni tekið tillit til kynjaskiptingar, búsetu og svo framvegis, ef þeir á annað borð eru þess fýsandi. Þetta er snjöll aðferð sem sameinar kosti lýðræðis og yfirvegaðrar uppstillingar.

Einn af veikleikum prófkjörsaðferðarinnar er að hún leiðir til innbyrðis baráttu í flokkunum og oft eru sárin seint að gróa. Þá stuðlar hún að því að áhersla á einstaklinginn verður ríkari en ella; spurt er hvort hann sýni dugnað og hugkvæmni. Og láta menn sig þá litlu varða þótt dugnaðurinn og hugkvæmnin beinst fyrst og fremst að því að koma sjálfum sér á framfæri. Út á það gengur náttúrlega slagurinn.

Að vekja eftirtekt og kunna á tímasetningar

Umræður í fjölmiðlum endurspegla þessar áherslur vel. Í sjónvarpsumræðu á Stöð 2 í gærmorgun sagði stjórnmálaskýrandi að sér fyndist skorta á að yngstu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins reyndu að skapa sér sérstöðu. Þeir ættu að taka afstöðu sem kæmi á óvart og vekti athygli. Í Silfri Egils fyrir prófkjör Samfylkingarinnar var sérstaklega rætt um aðdáunarverðar tímasetningar einhvers frambjóðandans. Auðvitað má segja að það skipti máli að stjórnmálamenn hafi til að bera dugnað og hugkvæmni. En skiptir ekki máli hvernig þessir eðliskostir eru nýttir? Þegar allt kemur til alls held ég að flestir vilji fá inn á þing einstaklinga sem eru fyrst og fremst sjálfum sér samkvæmir og lausir við lýðskrum.

Ég held að margir þeirra sem háð hafa prófkjörsbaráttu síðustu vikurnar taki undir þessi sjónarmið. Flestir hefðu viljað losna við þessar raunir sem að sumu leyti geta verið beinlínis niðurlægjandi.

Hundeltir kjósendur

En þó held ég að fegnastir af öllum verði háttvirtir kjósendur þegar þessari prófkjörshrinu lýkur. Þá loksins fá þeir frið. Hætt verður að hundelta þá, fá þá til að skrifa lofgjörðapistla í blöð og setja nöfn sín á auglýsingar. Þá loksins verður hætt að stilla þeim upp við vegg af frambjóðendum sem hver á fætur öðrum, oft margir á dag, reyna að neyða þá til að játa sér hollustu. Í mörgum tilvikum hefur kjósandinn enga ástæðu til að vera í nöp við þessa ágætu frambjóðendur sem flestir eru hið mætasta fólk. Það er frekar að þeir finni til með þeim. Þeir láta því til leiðast. Enginn vill vera vondur við lítilmagnann.