Fara í efni

NATÓ OG SAGAN

Það er ástæða til að vekja athygli á mörgu áhugaverðu sem fram kemur í Samstöðinni þessa dagana. Hún er ekki lengur á góðri leið með að verða verulega kröftugur fjölmiðill. Hún er þegar orðin það.
Ég vil vekja athygli á samtali Karls Héðins Kristjánssonar, sem stýrt hefur mörgum góðum þáttum á Samstöðinni og verið með gott innlegg sjálfur, við Tryggva Schiöth um sögu NATÓ. 
Það er sláandi hve fáir hafa gefið sér tíma til að reyna að skilja þann hluta baksviðs heimsstjórnmálanna sem snýr að vígbúnaði og tilraunum til heimsyfirráða. Þannig var þetta ekki fyrir nokkrum áratugum. Þá voru fleiri með á nótunum.
Með því að stroka út þetta baksvið og hina sögulegu vídd verður skilningur manna yfirborðslegur og hætt við að hagsmunir vígbúnaðarheimsins verði ráðandi í mótun heimsmyndar samtímans. 
Óhugsandi hefði verið, þó ekki hefði verið nema fyrir einum áratug, hvað þá ef lengra hefði verið leitað aftur í tímann, að allir stjórnmálalflokkar á Alþingi gerðust málsvarar NATÓ og styddu útþenslu þessa hernaðarbandalags. Sú er þó raunin nú því miður.
Þessu verður að breyta. Þá horfi ég alls ekki eingöngu til Alþingis heldur út í samfélagið allt. Þaðan verður að koma krafa um breytingar. Annars breytist ekkert.
Samfélagið þarf að hugsa upp á nýtt. Það eigum við hins vegar aldrei að gera án þess að reyna að skilja það sem á undan er gengið og þá að sjálfsögðu einnig það sem nú er að gerast - oftar en ekki á bak við tjöldin. 
Það er hressandi að sjá kraftmikla menn gera einmitt það í þessum þætti, að skyggnast á bak við tjöldin og setja jafnframt samtímann í sögulegt samhengi.: https://www.youtube.com/watch?v=7K3GFszPGbM