Fara í efni

Engin tilviljun

Í fréttabréfi Atlantsskipa er birt mynd af mér ásamt Össuri Skarphéðinssyni og Stefáni Kjærnested framkvæmdastjóra Atlantsskipa og í myndatexta segir að það hafi verið „skemmtileg tilviljun“ að þegar við heimsóttum skipafélagið hafi þetta skip verið nýkomið til landsins. Staðreyndin er sú að tilefni heimsóknarinnar var einmitt þetta skip, allavega hvað mig sjálfan varðar, þar sem forráðamenn fyrirtækisins vildu sýna mér hversu vel væri að áhöfninni búið í kjölfar gagnrýni sem ég hafði sett fram.

Það er alltaf gaman að hitta hressa menn og sókndjarfa. Það á við um forsvarsmenn Atlantsskipa. Þetta fyrirtæki hefur hins vegar farið offari og gengið á hlut launafólks með því að virða ekki íslenska kjarasmninga á skipum í millilandasiglingum á milli Íslands og annarra landa. Sjómanafélag Reykjavíkur hefur staðið í strangri baráttu til að fá fyrirtækið til að fara að íslenskum samningum, í það minnsta virða alþjóðlega lágmarkssamninga. Ég styð baráttu Sjómannafélags Reykjavíkur og hef skrifað blaðagreinar þar sem ég hef lýst yfir stuðningi mínum. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að óskabarn þjóðarinnar Eimskipafélag Íslands hefur verið engu betra og reiðubúið að nýta sér allar glufur í íslenskum lögum til að komast hjá því að þurfa að greiða laun eftir íslenskum samningum.

Stuttu eftir að ég skrifaði stuðningsgrein við  baráttu Sjómannnafélags Reykjavíkur höfðu forráðamennn Atlantsskipa samband og buðu mér í heimsókn. Til landsins væri nýkomið erlent skip sem mér væri boðið að skoða.

Þar sem ég vil alltaf heyra öll sjónarmið þáði ég boðið. Þetta var fróðleg heinsókn. Hún var vissulega athyglisverð en hún breytti ekki afstöðu minni. Mig langar af tilefni þessarar hugleiðingar að  benda á að það er svolítið villandi að staðhæfa eins og gert er í myndatexta í fyrrnefndu fréttabréfi að það hafi verið „skemmtileg tilviljun...“