Fara í efni

ENGA KRÖFU Á OKKUR TAKK FYRIR!

Sigmundur Góði og Bjarni líka
Sigmundur Góði og Bjarni líka

Eitt ævintýralegasta mál síðari tíma var málefni  Sparisjóðs Reykjavíkur í ársbyrjun 2004. Þannig var að lögum samkvæmt mátti ekki selja stofnbréf í sparisjóðum þar á meðal í SPRON nema á stofnverði, uppfærðu samkvæmt vísitölu.

Á bólutímanum gerðust eigendur stofnbréfa gráðugir mjög og vildu selja þau á markaði. Hófst nú atgangur mikill innan þings og utan. Hinir græðgisvæddu stofnbréfaeigendur mynduðu samtök og fengu tilboð í bréf sín - sem ólöglegt var að gera. Við það mynduðust væntingar um eignaaukningu en sem kunnugt er þá er eignarrétturinn varinn í stjórnarskrá. Á fund þáverandi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis voru kvaddir til sérfæðingar sem sögðu okkur sem í nefndinnu voru, að þrátt fyrir lög sem bönnuðu sölu á stofnbréfum sparisjóða á markaðsprísum þá stæði stjórnarskrárvarinn eignarréttur því miður ofar slíkum lögum. „En gildir það þá um alla sparisjóði í landinu", var spurt. „Nei, það er ekki svo, þar hafa stofnbréfin ekki verið falboðin, engin tilboð því borist og þar með hefðu engar væntingar skapast."

Þetta endemis rugl-mál kom upp í hugann þegar ég las að hæstaréttarlögmaður héldi því fram að yfirlýsingar framsóknarmanna um niðurfærslu skulda sköpuðu væntingar, sem aftur byggju til eignarrétt. Og ef á þann eignarrétt væri gengið ætti skuldugt fólk skaðabótarétt á hendur samfélaginu. Nei , takk. Ekki þessa vitleysu aftur. (Sjá:http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/09/12/haestarettarlogmadur-sjalfstaedismenn-a-moti-fyrirvaralausum-skuldaleidrettingum-verda-ad-stiga-fram/ )

Ef ríkisstjórnarflokkarnir standa ekki við kosningaloforð sín á ekki að leiða slík svik til lykta fyrir dómstólum. Þá eiga þeir að segja sig frá völdum og efna til kosninga. Svo einfalt er það.

Nokkrar slóðir af mjög mörgum um tengd efni:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvada-eignarrettur
https://www.ogmundur.is/is/greinar/eignarrettindi-eda-mannrettindi
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hver-ma-tala-um-spron
https://www.ogmundur.is/is/greinar/jon-steinar-og-salfraedingarnir