Fara í efni

ENDURNÝJAÐ TRAUST Í LANDSKJÖRSTJÓRN

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus

Birtist í Fréttablaðinu 02.03.11.
Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður, hefur verið gagnrýndur fyrir að taka endurkjöri í Landskjörstjórn. Það gerði hann fyrir eindregna hvatningu margra þingmanna, þar á meðal mína og engin athugasemd var gerð við það á þingi þegar endurkjörið fór fram í byrjun vikunnar.
Ég hafði á hinn bóginn gert opinberlega við það athugasemd í fjölmiðlum þegar Landskjörstjórn sagði af sér í einu lagi í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar til Stjórnlagaþings. Það gerði ég vegna þess að ég taldi aðfinnslur Hæstaréttar ekki hafa gefið tilefni til ógildingar og að ábendingar réttarins hefðu ekki verið þess eðlis að kallaði á afsögn.
Þvert á móti þótti mér rökstuðningur Hæstaréttar fyrir ógildingu mjög ósannfærandi svo ekki sé miklu sterkar að orði kveðið. Þeir annmarkar sem Hæstiréttur taldi sig hafa fundið yrðu hins vegar lagfærðir í framtíðinni. Það breytti þó ekki þeirri staðreynd að kosningin hafði verið úrskurðuð ógild og gaf Landskjörstjórn þá skýringu á afsögn sinni að þar með kynni traust manna á störfum hennar að hafa beðið hnekki. Þetta er virðingarverð afstaða og skiljanlegt að Landskjörstjórn vilji fá ótvírætt umboð þeirra sem skipa hana og þar með staðfestingu á að hún njóti trausts.
Það traust hefur hún nú fengið staðfest.