Fara í efni

En verða peningarnir eftir í vasanum Geir?

Birtist í Morgunblaðinu 22.11.04.
Forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann komu fram í fjölmiðlum yfir helgina að kynna fyrirhugaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar  á kjörtímabilinu. Í fyrsta lagi er á það að líta að loforð fram í tímann hafa ekki reynst mjög innihaldsrík hjá ríkisstjórnarflokkunum, sbr. samninginn við Öryrkjabandalag Íslands skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar. Sá samningur var svikinn. Nær væri að byrja á því að efna þann samning í stað þess að leggja nú  í aðra loforðahrinu. Í öðru lagi eru ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir í hugum okkar margra fremur hótanir en björt fyrirheit. Þegar Geir H. Haarde fjármálaráðherra lýsir því yfir að peningarnir séu best komnir "í vasa almennings" eins og hann kallar það, er mér mál að spyrja, í vasa hvaða fólks? Í vasa láglaunafólks verða þessir peningar ekki og alls ekki þess fólks sem þarf á samfélagsþjónustu að halda. Fjármálaráðherrann bætti nefnilega við í fréttaviðtölunum að þeir sem ætluðu að "hafa uppi fjárkröfur á ríkissjóð" skyldu gæta að því að "sníða sér stakk" í samræmi við nýjar aðstæður!

Er hér verið að tala til sjúkrahúsanna og annarra velferðarstofnana samfélagsins, þessara dæmigerðu "óábyrgu aðila" sem sífellt sprengja fjárlagarammann?  Er ef til vill verið að tala til  harðvítugra "þrýstihópa" á borð við elliheimili og stofnanir fyrir þroskahefta og annarra af því sauðahúsi? Er harkalegt og ósanngjarnt að setja dæmið upp með þessum hætti? Nei, þetta er raunveruleikinn! Auðvitað sér allt skynsamt fólk í gegnum vef ríkisstjórnarinnar. Það er að sjálfsögðu verið að reyna að þvinga stofnanir í almannaþjónustunni til að markaðsvæðast og fjármagna sig með notendagjöldum í stað þess "að hafa uppi  fjárkröfur á ríkissjóð". Á mannamáli þýðir þetta að skattaafslátturinn er ávísun á niðurskurð á framlögum til velferðarstofnana landsins  og verður rifinn upp úr vösum þeirra sem þurfa á samfélagshjálp að halda, skólanema, sjúklinga, öryrkja og atvinnulausra. Ef til vill getur það fólk sem á því láni að fagna að búa við góða heilsu og tryggt húsnæði unað vel við sinn hag. En er það þetta sem við viljum? Viljum við þrengja að samfélagsþjónustunni? Viljum við draga úr millifærslum og þar með jöfnuði? Að sjálfsögðu ekki. Vitanlega viljum við ekki láta rífa peningana upp úr vösum hinna þurfandi. Auðvitað mislíkar fólki að á meðan þrengt er að veikburða lágtekjufólki eigi hinir velmegandi áfram að liggja í bómull ríkisstjórnarinnar. Þetta þykir Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra og félögum við ríkisstjórnarborðið hins vegar aldeilis frábært. Forsætisráðherrann lýsti því andaktugur yfir í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á laugardag að fundin væri "besta leiðin til að koma þeim fjármunum sem úr er að spila til almennings með réttlátum hætti."

Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti var einhverju sinni sagt. Það á svo sannarlega við um núverandi ríkisstjórn Íslands.