Fara í efni

EN EF VIÐ LOSUÐUM OKKUR VIÐ ALMANNATRYGGINGAR?

Sandur - auðn
Sandur - auðn

Hæstaréttarlögmaður, Daniel Isebarn Ágústsson,  hefur fundið það út að ríkið geti sparað mikla peninga með því að aftengja ríkissjóð og Íbúðalánasjóð, þannig að engin ábyrgð falli nokkru sinni á ríkið. http://www.ruv.is/frett/rikid-gaeti-sparad-tugi-milljarda

Sem kunnugt er þá er Íbúðalánasjóður rekinn sem sjálfstæð fjárhagsleg eining en nýtur baktryggingar samfélagsins.
Þessi sama hagspeki var kynnt þjóðinni  sællar minningar þegar bankarnir voru einkavæddir, nú væri ríkið laust allra mála. Að vísu hafði ríkið ekki þurft að standa undir rekstri ríkisbankanna fyrir einkavæðingu. Þeir höfðu verið sjálfbærir einsog Íbúðalánasjóður hefur verið og hefði orðið ef ekki hefði orðið hér efnahagshrun. Og við þetta sama hrun varð til óheyrilegur kostnaður fyrir íslenska skattgreiðendur og var sá kostnaður beintengdur inn í hina einkavæddu banka sem okkur hafði verið sagt að kæmu ríkissjóði ekki lengur við. Eru menn nokkuð búnir að gleyma þessu?

Hinn félagslegi þráður Íbúðalánasjóðs er hins vegar í því fólginn að tryggja jafna stöðu landsmanna allra, hvar sem er á landinu og nýta lánamöguleikana sem fylgja því að hafa á sinni hendi öruggustu veðin í landinu - en ekki bara ótrtrygg veð á „köldum svæðum."
þetta vilja margir eyðileggja og þessar yfirlýsingar, sem hæstaréttarlögmaðurinn flytur okkur eru til slíks fallnar.

Það er reyndar rangt hjá honum að samfélagslegur kostnaður yrði minni með þessu fyrirkomulagi því tilkostnaðurinn vegna „kaldra svæða" og „ótryggra lána" félli þá beint á skattgreiðendur, en dreifðist ekki á húsnæðiskaupendur almennt.

En ef við förum að þessum tillögum og hættum að vera samfélag á sviði húsnæðismála í meintu sparnaðarskyni, hvers vegna þá láta við þetta eitt sitja? Hvers vegna ekki losa okkur við ábyrgð á almannatryggingum líka? Og vegakerfinu. Láta bara notendur borga: : „Þeir borga sem njóta".  

Sennilega hefði talsmönnum þessarar hugsunar litist ágætlega á Jótlandsheiðahugmyndirnar upp úr Móðuharðindunum; að alla vega hefði mátt skoða hvort ekki væri ódýrara að flytja landann í heilu lagi austur á heiðar Jótlands en púkka upp á hann hér norður á hjara veraldar. Gera svo bara út frá verstöðinni  Íslandi. Skuldlausu Íslandi. Og samfélagslausu.

Hins vegar er alvarleg meinloka í þessari röksemdafærslu. Hún er reyndar tvíþætt. Í fyrsta lagi yrði það skattborgaranum þyngri byrði að kosta niðurgreiðslur allra „félagslegra lána" í stað þess að nýta stærðarhagkvæmni hinnar stóru heildar eins og nú er gert. Í öðru lagi þá má færa rök fyrir því og vísa til sögulegrar reynslu, að þegar horfið er frá samfélagslegri ábyrgð þá veikist samfélagið allt en styrkist ekki.

Það er með öðrum orðum  ódýrara að vera samfélag en samansafn einstaklinga á markaði. Auk þess þá líður okkur betur í samfélagi. Það skiptir máli.