Fara í efni

En ef hún hefði verið dóttir Saddams Husseins?

Ég er búinn að gleyma því hvað tónlistarmaðurinn hét sem ætlaði að halda konsert í Vín, eða var það Búdapest, og gerði þá "sjálfsögðu kröfu" að smíðaður yrði bar baksviðs nákvæmlega eins og barinn var á hótelinu sem hann bjó á og "hafði tekið ástfóstri við". Þetta þótti mjög sniðugt og ofur eðlileg krafa, að maðurinn vildi vera í samræmdu umhverfi. Í fréttum Sjónvarps í kvöld fengum við fréttir af brúðkaupskjól sem kostaði 30 milljónir króna og að sjálfsögðu hafði hann verið seldur. Fréttakonan velti vöngum yfir því hvort hamingjan yrði í samræmi við prísinn. Ég velti því fyrir mér hvort þetta hefði þótt eins sniðugt eða saklaust ef kjóllinn hefði verið keyptur fyrir dóttur Saddams Husseins. Það hefði verið túlkað sem botnlaus spilling – réttilega. Líklega er spillingin þó jafn mikil í tilviki auðkýfingsins á Manhattan í New York, sem keypti kjólinn fyrir dóttur sína. Sá maður baðar sig greinilega í milljörðum. Slíkar upphæðir eru sjaldnast vel fengnar, heldur hafa handhafar slíkra fúlgna, sjálfir eða forverar þeirra, yfirleitt sölsað þær undir sig, og oftar en ekki í skjóli spillingar. Eitt er alla vega ljóst, að  þetta mikið í kaup fá menn ekku einu sinni á Manhattan fyrir venjulega launavinnu, jafnvel þótt þeir vinni yfirtíð.
Það er hins vegar umhugsunarvert að "spillingarfréttirnar" rata jafnan á forsíður Morgunblaða þessa heims. Þær fjalla yfirleitt um kommúnista, Saddama Husseina og þeirra líka. Á innsíðum sömu blaða er hins vegar að finna skemmtiefnið, skondnu fréttirnar af ríka og áhugaverða fólkinu, sem er svo óendanlega frumlegt í hugsun, lætur smíða sér bari til að vera í rétta umhverfinu fyrir sjússinn að loknum konsert, kaupir kjól fyrir dótturina á 30 milljónir vegna þess hve rík föðurást svellur í brjósti. þetta er svo skemmtilegt og svona skemmtilegar fréttir tíðkast ekki að birta á forsíðum stórblaðanna með vandlætingartón. Svona skemmtilegar og jákvæðar fréttir eru birtar á innsíðum undir fyrirsögnum á borð við, Fólk í fréttum. En aftur að fyrirsögninni hér í Brennidepli, ef pabbinn sem gaf kjólinni hefði heitið Saddam Hussein. Hefði fréttin þótt hugljúf?
Ég bara spyr.