Fara í efni

Ellert leiðréttur

Ellert B. Schram er kominn á fullt í kosningabaráttuna. Veri hann velkominn. Í fjölmiðlum hafa menn verið að velta yfir því vöngum hvort Ellert muni segja sig úr Sjálfstæðisflokknum eftir að hann tók ákvörðun um að setjast á lista Samfylkingarinnar í komandi Alþingiskosningum. Þetta kemur Ellert, Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni einum við. Aðrir láta sig þetta að sjálfsögðu í léttu rúmi liggja. Og Ellert kemur það einum við þegar hann nú  kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé fyrir sig  að breyta um pólitískan baráttuvettvang. Ég trúi honum þegar hann segir að Samfylkingin sé flokkur að sínu skapi og henti sínum pólitísku áherslum. Þetta er allt eðilegt og sjálfsagt. Fyrir kjósendur segir það hins vegar sína sögu um Samfylkinguna að fyrrverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli velja hana sem sinn flokk. Í Silfri Egils í gær og aftur í Kaffispjalli Kristjáns Þorvaldssonar lýsti  Ellert yfir hollustu við markaðshyggjuna. Flest hefði tekist afspyrnuvel á undanförnum áratug undir forystu Sjálfstæðisflokksins þótt sitthvað þyrfti nú að laga, kvótakerfið og misskiptinguna í þjóðfélaginu; hún væri úr hófi fram og völdin komin á allt of fáar hendur. En þótt ég hafi skilning á öllu því sem að framan greinir er engu að síður eitt atriði sem þörf er á að leiðrétta. Þegar Ellert heldur því fram að um einkavæðingarstefnu undangenginna ára hafi verið fullkomin sátt í þjóðfélaginu  - henni hafi enginn verið andvígur – þá er illilega hallað réttu máli. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur haldið uppi harðri gagnrýni á þessa stefnu og alla tíð varað við afleiðingum hennar: aukinni misskiptingu og valdasamþjöppun í samfélaginu. Staðreyndin er nefnilega sú að það sem Ellert B. Schram gagnrýnir í öðru orðinu eru afleiðingar þeirrar stefnu sem hann og pólitískir samherjar hans mæra í hinu orðinu.