Fara í efni

Ellefu dagar á vökudeild

Birtist í Mbl
Málgagn íslenskra námsmanna erlendis heitir Sæmundur. Í desemberútgáfu Sæmundar kennir margra grasa. Þar eru meðal annars efnis viðtöl við ungar íslenskar mæður sem eignast hafa börn sín erlendis. Viðtölin eru í senn skemmtileg og fróðleg og gefa innsýn í heilbrigðiskerfi annarra þjóða.

Í ljósi þess ásetnings nokkurra lækna að róa að því öllum árum að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið staðnæmdist ég við lýsingu íslenskrar konu af reynslu sinni af bandaríska heilbrigðiserfinu en þar blómstra markaðslögmálin sem kunnugt er. Hún gefur þeirri hjúkrun og þjónustu sem hún naut sín bestu meðmæli og segir að henni hafi fundist gott að eignast barn sitt í Bandaríkjunum. En hún bætir við: „Það er nauðsynlegt að vera vel tryggður. Heilbrigðiskerfið heima borgar fæðingar barna íslenskra námsmanna erlendis - en aðeins upp að þeirri upphæð sem það myndi hafa kostað hér heima svo maður getur endað með mjög háan bakreikning.“ Barn þessarar konu var fyrirburi. „Ellefu dagar ... á vökudeildinni kostuðu hátt í þrjár milljónir, fæðingin sjálf ekki innifalin, svo það er augljóst að heilbrigðiskerfið hér er alls ekki ódýrt og getur sett íslenskan námsmann fljótt á hausinn.“

Íslendingar hafa trausta heilbrigðisþjónustu að bakhjarli. Í Bandaríkjunum er seldur aðgangur að góðum sjúkrarúmum. Menn geta að sönnu keypt sér tryggingar en niðurstaðan hefur orðið sú að mismunun í heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum er meiri en víðast hvar annars staðar. Viljum við gera þetta okkur að fyrirmynd?