Fara í efni

Eldhúsdagsræða á Alþingi

Ræða flutt af ÖJ á Alþingi 12.03. 2003
Hinar pólitísku línur hafa verið nokkuð skýrar í flestum málaflokkum á liðnu kjörtímabili. Sex þingmenn töluðu í úrslitaumræðu um stóriðjuáformin. Sex þingmenn studdu tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð öræfanna norðan Vatnajökuls. Þetta voru að sjálfsögðu þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þrír þingmenn til viðbótar höfðu áður lagst gegn  stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar og hafi þeir lof fyrir. 

Ekki hafa línur verið eins skýrar í öllum málum. En eitt er víst að alltaf hefur mátt reiða sig á þingflokk Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í sókn en einnig í vörn fyrir velferðarkerfið, og þegar einkavæðingu hefur borið á góma hafa fulltrúar annarra flokka annað hvort verið fylgjandi eð gerst nokkuð óskýrir í tali. Ráðherraefni Samfylkingarinnar sagði í Borgarnesi í umtalaðri ræðu, svo dæmi sé tekið, að markverðustu málin sem unnist hefðu í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks frá 1991 væri annars vegar hinn evrópski EES samningur og hins vegar  einkavæðing bankanna. 

Öðru vísi drögum við upp afrekaskrá og syndaregistur Sjálfstæðisflokksins á tólf ára valdaferli hans. Valdaferli sem nú er orðið tólf árum of langt. Sjálfstæðisflokkurinn er nú greinilega orðinn hræddur um að valdasetan sé á enda og hvað er gert þá? Eins og fyrri daginn er gripið til hræðsluáróðurs. Davíð Oddsson forsætisráðherra segir að komi vinstri stjórn þá brenni sparifé landsmanna upp í óðaverðbólgu. Þetta er rangt. Það var vinstri stjórn sem kvað niður verðbólguna fyrir rúmum tólf árum – áður en Davíð Oddsson settist í Stjórnarráðið - og það erum við – vinstri mennirnir - sem hvetjum til varfærni og yfirvegunar í efnahagsmálum, vörum við óráðsíu, segjum að ekki megi ofkynda efnahagskerfið og setjum fram tillögur í atvinnu- og efnahagsmálum sem stuðla að festu og stöðugleika.

Það er hins vegar rétt – og ég ætla ekki að mæla því í mót að síðustu daga og vikur hafa komið fram yfirboð og gylliboð sem engin innistæða er fyrir og vísa ég þá sérstaklega í yfirlýsingu formanns Framsóknarflokksins um að senn verði unnt að auka útgjöld ríkissjóðs og lækka skatta um 15 milljarða króna á ári. Ekki nokkur hagfræðingur skrifar upp á þessar undarlegu bókhaldskúnstir – og mér er sagt að hagfræðingar sem eru í verkum fyrir Framsóknarflokkinn fari nú með veggjum.

En hvað um það. Þetta segir Framsóknarflokkurinn að sé hægt m.a. vegna arðsins af stóriðju – stóriðju sem Framsóknarflokkurinn vill gera að hornsteini íslenska velferðarkerfisins. Látum liggja á milli hluta deilur um hvort yfirleitt verður nokkur arðsemi af stórðjuframkvæmdunum fyrir íslenska þjóðarbúið  - hitt er óábyrgt að lofa upp í ermina á sér fyrir kosningar. Forsætisráðherrann ætti að hvísla því að sessunaut sínum að ef hann ætli að halda svona áfram gangi ekki að auglýsa Framsókn sem klettinn í hafinu eins og stundum hefur verið gert fyrir kosningar heldur miklu fremur sem steinvölu eða smástein eða kanski sem titrandi strá í túni.

En fyrst og fremst ætti forsætisráðherra þó að líta í eigin barm. 

Það sem ruglað hefur Sjálfstæðisflokkinn í ríminu er löng valdaseta og fylgispekt valdakerfis landsins við flokkinn. Eitt lítið dæmi. Sjálfstæðisflokkurinn gerist á gamals aldri málsvari ríkisafskipta í þungaiðnaði. Frjálshuga fylgismenn flokksins verða gapandi af undrun – trúa ekki eigin augum. En að lokum eru allir barðir til hlýðni. þannig birtust á sjónarsviðinu Samtök atvinnulífsins – og tóku að blessa allt í bak og fyrir – nöldra að vísu svolítið núna, þegar málið er komið út úr þinginu, yfir háum vöxtum og óraunhæfu gengi en þegar á þurfti að halda, þegar tekist var á um þá  ákvörðun hvort fórna ætti öræfunum fyrir Alcoa þá var ályktað kvölds og morgna, allt var sagt í himnalagi, löngu áður en raforkusamningar voru í sjónmáli og nokkrar efnahagslegar forsendur til að byggja á;  - á fundi í Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis var haft á orði að gamla góða Vinnuveitendasambandið eins og það var kallað, það myndi samþykkja samyrkjubú ef flokkurinn krefðist þess. 

Og þá aftur að forsætisráðherra. Hann og hans flokkur skyldi tala varlega þegar kemur að því að gefa öðrum einkunn fyrir frammistöðu í efnahagsmálum. Því staðreyndin er sú að á undanförnum árum hefur verið uppsveifla í efnahagsmálum á Vesturlöndum og hefur hún skilað sér inn í samfélög í þessum heimshluta í auknum kaupmætti þjóðanna. Það hefur síðan verið komið undir stjórnvöldum í hverju landi fyrir sig hvernig til hefur tekist um skiptin og þar hefur nú íhaldinu heldur betur förlast verkastjórnin.

Stór göt hafa verið rifin í félagslega öryggisnetið, biðlistar eftir leiguhúsnæði hafa aldrei verið lengri, tilkostnaður einstaklinga við heilbrigðisþjónustu hefur stóraukist og kjaraþróun aldraðra, öryrkja og láglaunafólks er ekki í nokkru samræmi við hátekjustéttirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nostrað við. Við skulum ekki gleyma að þetta er sama ríkisstjórnin og fannst of míkið í lagt að bæta kjör öryrkja. Við munum öll öryrkjadóminn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur gerbreytt íslensku þjóðfélagi í grundvallaratriðm. Um daginn talaði ég um braskvæðingu í þessu samhengi. Fjármálaráherrann Geir Haarde reiddist þessu mjög fyrir hönd flokks síns og sagði þetta steinaldarviðhorf. En við fjármálaráherrann vil ég segja: Íslendingar vita nákvæmlega hvað orðið brask þýðir. Ég þarf ekki einu sinni að nefna dæmin um bónusgreiðslur sem eru hærri en ævitekjur verkamanns og skattaskjólin sem fjármálafyrirtækin hafa búið milljarðamæringunum. Ég held að Sjálfstæðismenn sjálfir geri sér grein fyrir því að gagnrýni okkar snýr ekki að eðlilegum viðskiptum í þjóðfélaginu heldur inn á hvaða braut viðskiptalífið er komið. Er niðurstaðan ekki sú að bylting hinnar hrá-róttæku frjálshyggju, sem hefur rifið niður allar girðingar og múra, er farin að éta börnin sín? Þetta er líka skýringin á því að okkar sjónarmið fá nú góðan hljómgrunn, þar sem áhersla er á blandað hagkerfi, þar sem atvinnulíf og almannaþjónusta byggir hvort annað upp.

En hvað er það nákvæmlega sem við viljum? Það er alveg skýrt. Við segjum: Það á að vera hlutverk ríkisins að byggja upp velferðarþjónustu, skóla og rannsóknir, sjúkrahús,samgöngur, almannatryggingar, löggæslu, þjónustu við fatlaða, gott húsnæðiskerfi, að tryggja réttlæti og velferð í þjóðfélaginu. Það er einnig okkar, með örvandi almennum aðgerðum að virkja það frumkvæði sem býr í atvinnulífinu sjálfu, þann sköpunarkraft sem þar er fyrir hendi og hefur að meðaltali fært okkur helmingi fleiri störf á ári frá 1970  en milljarða fjárfesting ríkisstjórnarinnar nú í stóriðju. Staðreyndin er sú að ríkisstjórn hægri manna hefur snúið öllu á hvolf, ráðist gegn grunnþjónustunni, dregið úr henni og einkavætt og lagt niður fjárfestingarsjóði atvinnulífsins en hins vegar hafið stórfelld bein ríkisafskipti af atvinnurekstri á kostnað almannasjóða. 

En hvað um Samfylkinguna? Það er einmitt á þessum punkti sem mig langar til að þakka henni. Ég vil færa  Samfylkingunni sérstakar þakkir fyrir að birta ræðu ráðherraefnis flokksins frá Borgarnesi. Þar sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að hún aðhylltist sömu stefnu og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands – hann hefði í raun stolið blairismanum frá henni og pólitískum samferðarmönnum. Fyrir þjóðina er nauðsynlegt að vita þetta því undir merkjum blairisma hefur velferðarþjónustan breska verið einkavædd sem aldrei fyrr enda fer kurrinn vaxandi út í bresku hægri kratana og það er ekki bara út af Írak. 

Og nú spyr ég þá sem vilja tveggja flokka kerfi á Íslandi – er það þetta sem menn vilja?
Eða vilja menn ríkisstjórn með vinstri áherslum – velferðarstjórn sem rís undir því sæmdarheiti?

Slík stjórn verður ekki mynduð án Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. En slíkrar stjórnar bíður spennandi uppbyggingarstarf, - að framkvæma hugmyndir okkar um nýtt húsnæðiskerfi, við eru með tillögur um kjarabætur fyrir barnafólk, samfélagslaun fyrir öryrkja, ráttlátt skattkerfi, gerbreytt fiskveiðikerfi, stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki, ríkar áherslur í jafnréttismálum, umhverfismálum og náttúruvernd.

Og sérhver kjósandi þarf nú að spyrja: Hverjum treysti ég best til að halda uppi merki jafnaðar, sóknar í lífskjaramálum almennings, launafólks, öryrkja, aldraðra; og hverjum treysti ég til að halda uppi baráttu fyrir umhverfisvernd og réttlæti á alþjóðavettvangi?

Hverjir eru líklegastir til að berjast fyrir því að Ísland hafi sjálfstæða utanríkisstefnu í stað þess að fylgja Nató og Bandaríkjastjórn eins og nú gagnvart Írak? 

Góðir Íslendingar. Það skiptir máli hvernig Vinstrihreyfingunni grænu framboði reiðir af í alþingiskosningunum í maí. Ég heiti því að við munum gera okkar besta á komandi kjörtímabili en til þess þurfum við nú á stuðningi kjósenda að halda.