Fara í efni

Ekki sú kjarajöfnun sem af er látið

Birtist í Mbl
Kjarasamningunum sem aðilar á almennum vinnumarkaði og ríkisstjórn gengu frá 21. febrúar sl. hefur verið hampað sem kjarajöfnun. Þegar þessir samningar eru skoðaðir í samhengi kemur hins vegar annað í ljós. Þessir samningar auka enn á kjaramuninn í landinu. Þeir eru ekki sú kjarajöfnun sem af er látið.

Samningur aðila vinnumarkaðarins leiðir vissulega til ákveðinnar kjarajöfnunar enda gengið þar út frá krónutöluhækkun á laun, auk þess sem krónurnar eru fleiri hjá þeim sem eru á lægstu töxtunum en öðrum. Krónutöluhækkunin er bara alltof lítil því hún kemur þeim sem eru á lægstu töxtunum ekki yfir nauðþurftarmörkin. Sá smánarblettur, sem verið hefur á íslensku þjóðfélagi, að fullfrískt fólk í fullri vinnu séu ekki matvinnungar, er því enn til staðar.

 

Hæpin vinnubrögð

Sé litið til aðgerða ríkisstjórnarinnar í tengslum við samningana blasir við að þær gagnast þeim tekjuhæstu mun betur en öðrum. Þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og kjarasamningarnir eru tekin saman kemur í ljós að 185 þúsund króna maðurinn ber jafn mikið úr býtum í krónum talið og þeir sem eru á lægstu töxtunum og 400 þúsund króna maðurinn helmingi meira. Það er ekki kjarajöfnun.

BSRB lýsti yfir vilja til að ræða við ríkisstjórnina um ýmsar sameiginlegar kröfur aðildarfélaga bandalagsins. Ríkisstjórnin kaus að hleypa engum öðrum en atvinnurekendum og Alþýðusambandinu að viðræðum um hvernig stjórnvöld gætu liðkað fyrir samningum. Verður að telja það afar hæpin vinnubrögð þegar opinberir starfsmenn eru með lausa samninga og kennarar í verkfalli. Ákvarðanir stjórnvalda snerta alla launamenn í landinu og til að slíkar aðgerðir skapi frið á vinnumarkaðinum þarf að ríkja samstaða um þær. Því er ekki að heilsa nú. BSRB hefði kosið að gripið hefði verið til aðgerða sem hefðu áhrif til kjarajöfnunar en ekki til aukins ójafnaðar eins og raun er á nú.

 

Skólabókardæmi um yfirgang

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli eru skólabókardæmi um yfirgang. Til að standa við loforð sín eru frumvörp um breytingar á skattalögum keyrð í gegnum þingið á síðustu dögum þess. Frumvörp sem kosta ríkissjóð 3 milljarða á ári eftir að áhrif breytinganna eru að fullu komin fram. Hér er því ekki um neinar smá fjárhæðir að ræða og hefur oft þótt tilefni til að ræða í þaula fjárveitingar sem eru bara brotabrot af þessari upphæð. Hér virðist því gilda hið fornkveðna: að spara eyrinn en henda krónunni.

Þetta virðist ríkisstjórnin geta leyft sér í krafti þess að nýir menn verði að leysa útgjaldalið ríkissjóðs vegna þessara aðgerða. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með kjarasamningunum stendur nefnilega að „…þessu verður að mæta með auknum tekjum og/eða niðurskurði útgjalda.“

Hér er því verið að koma því yfir á næstu ríkisstjórn að leysa greiðsluvanda ríkissjóðs vegna kjarasamninganna.

Það ber allt að sama brunni. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks endar feril sinn á sömu nótum og allt stjórnarsamstarfið hefur verið. Í tíð hennar hefur átt sér stað mesta eignatilfærsla síðari ára. Launabilið hefur aukist jafnt og þétt og vegið hefur verið að rótum velferðarkerfisins. Það þarf því ekki að koma á óvart að síðasta verk ríkisstjórnarinnar sé að ávísa á næstu ríkisstjórn enn frekari fjármunum til að auka enn á launabilið í landinu.