Fara í efni

EKKI „NORMALÍSERA" ÓGNIR OG VÍGBÚNAÐ !!!

Vopnuð lögregla 2
Vopnuð lögregla 2

Þjóðaröryggisráð fundaði „á öruggum stað á Keflavíkurflugvelli." Ég hélt fyrst þegar ég sá um þetta fjallað  - sjálfur hef ég verið erlendis undanfarna daga - að þetta væri grín.

En nú sé ég að þetta er ekki grín. Og nú spyr ég, er verið að „normalísera" vopnvædda löggæslu Íá slandi?

Auðvitað getur það hent á Íslandi eins og annars staðar að eitthvað hræðilegt hendi; morðóðir menn gangi berserksgang eða fremji illvirki að yfirveguðu ráði. En með vopnavæðingu lögreglu við dagleg löggæslustörf er að mínu mati ekki dregið úr nokkurri slíkri ógn. Þvert á móti er stigið inn í vítahring víxlverkunar.

Í sanngjarnri og réttsýnni utanríkisstefnu og að sama skapi í sanngjörnu og réttsýnu þjóðfélagi er mest öryggi fólgið. Þegar slíku þjóðfélagi er síðan ógnað - ef það gerist - þá reynir það að bregðast við af yfirvegun og með opinni umræðu þar sem margir komi að máli. Með öðrum orðum, þetta á ekki að vera ákvörðun fárra. Byssur í hendur lögreglunnar og hið ósagða látið liggja í loftinu er á hinn bóginn til þess fallið að koma fólki úr jafnvægi - þar til bæði ógnin og vígbúnaðurinn hefur verið „normalíserað", orðið hluti af „eðlilegu" ástandi.

Nú er búið að normalísera þá hugsun að eðlilegt sé að taka tannkremstúpur af fólki „í öryggisskyni" áður en því er leyft að ferðast um háloftin. Hvar á svo að draga mörkin? Almenningsvagnar hafa verið sprengdir í loft upp úti í heimi. Enn er ekki farið að taka tannkremið af strætófarþegum. En hve langt er í það?

Fáir þora að andæfa gegn þessari þróun af ótta við að verða kennt um allt það sem úrskeiðis kann að fara. Sjálfur mótmælti ég nú alveg nýlega því sem mér virðist tilefnislaus vopnaburður  lögreglunnar. Svipað og ég hef gert í nokkra áratugi - og mun gera enn. Í kjölfarið fékk ég að heyra um Breivik og mátti skilja að ég hefði verið að senda aðstandendum fórnarlamba hans ill skilaboð! Þetta er slæm leið til að ræða málin en einmitt á því er nú þörf.

Það má ekki stilla okkur upp við vegg frammi fyrir gerðum hlut. Það gerist ef lögreglan fer sínu fram með vopnin og ráðamenn segja síðan það eitt, að þeir vilji ekki reyna að hafa áhrif á mat lögreglu á aðstæðum. Frekari skýringar fáum við ekki. Með þögninni og síðan tilvísan í aðila sem neita að tjá sig, komast yfirvöldin hjá nauðsynlegri og aðkallandi umræðu.

Enn færri tala um hryðjuverkin sem NATÓ herveldin, Rússland og fleiri ofbeldisríki, bera ábyrgð á víðsvegar um heiminn og framkalla hræðslu, vonleysi og árásargirni - að ógleymdu flóttafólkinu. Jafnan er reynt að kæfa umræðu um þetta samhengi stjórnmálanna, heimsmálanna og hryðjuverka.

Ég ætla nú samt að leyfa mér að segja það og hvet sem flesta til að gera slíkt hið sama: Besta vörn Íslands er réttsýni og sanngirni heima og heiman ... og að koma okkur út úr illum félagsskap.
Ísland úr NATÓ! 
http://www.ruv.is/frett/thjodaroryggisrad-fundar-a-oruggum-stad

Umfjöllun Eyjunnar:  http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/06/13/ogmundur-ekki-normalisera-ognir-og-vigbunad/