Fara í efni

EKKI LYFJAAUGLÝSINGAR Í SJÓNVARP!

Paratabs
Paratabs

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp sem kveður á um lögleiðingu sjónvarpsauglýsinga um lausalyf. Þetta er fyrst og fremst sagt vera samræmingarmál því slíkar auglýsingar séu heimilaðar í prentmiðlum.

En í þágu hverra er verið að samræma? Framleiðenda og söluaðila? Auglýsingamiðla? Neytenda?

Varla þeirra síðastnefndu.

Í umræðunni á Alþingi kom m.a. fram:

1) Heilbrigðisyfirvöld, þar á meðal embætti Landlæknis hafa sett fram efasemdir og  varnaðarorð. Mikilvægt sé að aukaverkanir og  skaðlegar hliðar viðkomandi lyfja séu rækilega tíundaðar. Spyrja má hvort líklegt sé að framleiðendur kappkosti að gera slíkar upplýsingar mjög sýnilegar í söluauglýsingum sínum?

2) Sjónvarpsauglýsingar eru líklegar til að örva notkun lausalyfja. Þess vegna er auglýst. Er þetta æskilegt markmið?

3) Hvatt var til þess að taka alla lyfjalöggjöfina og þá sérstaklega auglýsingaþáttinn til endurskoðunar. Því var haldið fram að þessi útvíkkun á auglýsingaheimildum væri ekki líkleg til að auðvelda það starf.

4) Það er ekki sama hvar auglýst er. Þannig er eðli og yfirbragð sjónvarpsauglýsingar allt annað en auglýsingar  í prentmiðli.

Í umræðunni  á Alþingi benti ég á að auglýsingar sem slíkar væru hvorki góðar né slæmar. Einstakar auglýsingar væru annað hvort góðar eða slæmar. Góð auglýsing sem gefur okkur upplýsingar um vöru og þjónustu er eftirsóknarverð. Auglýsing sem gefur okkur misvísandi upplýsingar er á hinn bóginn neikvæð.

Sjónvarpsauglýsingar eru að jafnaði hughrifsauglýsingar. Oft vitum við ekki fyrr en undir lok sjónvarpsauglýsingar hvað verið er að auglýsa. Bankar sýna okkur glatt og ánægt fólk en segja okkur sjaldnar frá afborgunarskilmálum. Við fáum að vita að fólki líði vel af drykkju tiltekinnar kaffitegundar. Þannig yrði það líka með lyfin.

Það er ekkert við góðar og upplýsandi  lyfjaauglýsingar að athuga. En þær eru líklegri til að birtast okkur á prenti en í sjónvarpi.

Sjónvarpsáróður fyrir auknu pilluáti er ekki það sem við þurfum á að halda.