Fara í efni

EKKI KAUPA FLEIRI SKURÐGRÖFUR!

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 11/12.06.16.
Í aðdraganda hrunsins var ofsaþensla í flestum geirum atvinnulífsins. Byggingakranar gnæfðu alls staðar við himin. Og flutningaskip voru yfirfull af stórvirkum vinnuvélum á leið til landsins. Líkt og nú, var auglýst um allar álfur eftir starfsfólki að taka þátt í dansinum.

Svo kom hrunið. Nýbyggðu húsin stóðu auð og ónotuð, heilu hverfin. Talsmenn aðgerðalausra vinnuvéla voru að vonum miður sín og kröfðust verkefna. Vildu virkja, fá margbreiða vegi, ef skattgreiðandinn borgaði ekki beint, mætti rukka hann í veghliðum. Þarfir skurðgröfunnar og hagsmunir skyldu með öðrum orðum hafðir í fyrirrúmi. Móður jörð þótti þetta ekki vera fýsilegur þrýstihópur og stórvarasamt ef hann fengi völdin í hendur. Ég var henni sammála. Og er enn. Þess vegna líst mér ekkert á alla kranana og allar gröfurnar sem nú streyma til landsins. 

Í kjölfar hrunsins tókst ekki að bjarga öllum atvinnulausum skurðgröfum. Sem betur fer, með hliðsjón af þeim verkum sem menn ætluðu þeim. Vinur minn einn, sem reyndar sjálfur er skurðgröfumaður, tók mig í bíltúr vorið 2009. Förinni var heitið á hafnarbakkann í Hafnarfirði. Þar voru vinnutæki, sem fjárfestingafyrirtækin, sem prangað höfðu tækjunum inn á menn, höfðu safnað saman að nýju eftir að hafa endurheimt tækin, með góðu eða illu, stundum mjög illu, og vildu nú flytja þau úr landi á eins konar eftirá markað í Evrópu.

Nú er það ekki svo að ég vilji ekki að Íslendingar eignist vinnuvélar, því fer fjarri og er ómæld aðdáun mín á hinum íslenska skurðgröfumeistara sem vinnur stórvirki sín með augum listamannsins og nákvæmni teskeiðarinnar. Ég er að tala um allt annað.

Ég er að tala um það að inn í öll kerfi er hægt að byggja hvata og drifkrafta. Með einkavæðingu er drifkrafturinn, og stundum ákvörðunarvaldið, fært úr hendi almannavaldsins í hendur fjárfesta. Þetta gerist með einkavæddri heilbrigðisþjónustu og þetta gerist ef við færum umsýslu samgöngukerfisins í hendur einkaaðilum. Um þetta hef ég stundum fjallað.

Öll þekkjum við þetta, eða velkist einhver í vafa um að sjónarmið af þessu tagi eru talsvert ráðandi í skipulagsþróun Reykjavíkur. Í Ráðhúsinu hefur því blákalt verið lýst yfir að borgin selji land þeim sem best býður. Og hverjir skyldu það vera? Og hvað skyldu viðkomandi þurfa að gera til að geta greitt hátt verð? Það liggur í augum uppi: Því meira byggingarmagn þeim mun hærra verð.

Ég hef fundið fyrir andardrætti verktaka ofan í hálsmál mitt þegar ég gegndi ráðherraembættum, bæði á sviði heilbrigðismála og samgöngumála. Ágætt að allir viðri skoðanir sinar og þess vegna þrýsti á. Öðru máli gegnir þegar þess er krafist að fá ákvörðunarvaldið í hendur. Og því segi ég nú, ekki fleiri krana og ekki fleiri skurðgröfur. Þær gætu framið valdarán.