Fara í efni

EKKI Í OKKAR NAFNI

Þjóðarhreyfingin gengst nú fyrir söfnun fyrir auglýsingu í bandarísku stórblaði  til að skýra hvernig á því stóð að Íslendingar höfnuðu á lista hinna viljugu eða vígfúsu ríkja sem studdu Bandaríkjastjórn til innrásar í Írak (ríkisstjórnin vill helst nota hugtakið staðfastur sem þýðingu á enska hugtakinu willing sem er alrangt; viljugur eða vígfús í þessu samhengi er nær lagi). Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar róa nú að því öllum árum að ófrægja aðstandendur þessa framtaks. Síðan er hinu náttúrlega haldið á loft að ekki megi tala illa um þjóðina í útlöndum: Að út á við þurfum við að standa saman. Almennt virða Íslendingar þessa grunnreglu. Það eru hins vegar forsvarsmenn þjóðarinnar, þeir Davíð Oddsson, utanríkisráðherra  og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra sem hafa brotið hana með því að ófrægja þjóðina á erlendri grundu, gert okkur að taglhnýtingum Bandaríkjastjórnar sem heyr árásarstríð í Austurlöndum og víðar í þágu eigin hernaðar- og olíuhagsmuna. Ákvörðun sína um að styðja ólöglegt árásarstríð tóku forsætisráðherra og utanríkisráðherra ólöglega og þvert á vilja yfirgnæfandi meirihluta íslensku þjóðarinnar. Þeir Davíð og Halldór hafa framið alvarleg afglöp og gert Íslendinga að þátttakendum í stríðsglæpum. Það er fullkomlega eðlilegt að við sem erum þessum stríðsglæpum andvíg reynum að bera af okkur sakir og segja svo allir heyri að glæpirnir séu ekki framdir í okkar nafni. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra og verjendur þeirra ættu að sjá sóma sinn í því að hafa hægt um sig og hvetja til þess að látið verði af árásum á fólk sem nýtir sjálfsagðan rétt í lýðræðisþjóðfélagi að lýsa veruleikanum eins og hann blasir við og láta í ljós skoðun á honum. Ég hvet lesendur til að fara inn á vef Þjóðarhreyfingarinnar, hér, auk þess sem ég vísa í skrif  Hjartar Hjartarsonar í Frjálsum pennum hér á síðunni.