Fara í efni

Ekki fór einokunargróði olíufélaganna í Hvalfjörðinn!


Fyrir botni Hvalfjarðar hafa íslensku olíufélögin birgðatanka fyrir eldsneyti. Einng mun NATÓ hafa þarna tanka frá fyrri tíð. Eftir því sem ég kemst næst hirðir hernaðarbandalagið vel um sína tanka. Ekki verður hið sama sagt um olíufélögin. Ryðgaðir tankarnir blasa við þeim sem eiga leið um Miðsand í Hvalfirði. Getur það talist forsvaranlegt að olíufélögin hætti að sinna viðhaldi birgðageymslanna og láti þær ryðga niður? Þetta er ekki bara ljótt að sjá heldur líka hættulegt - eða hvað?. Ég heyrði haft eftir bónda af svæðinu að hann hefði eitt sinn komið að lekri olíuleiðslu þar sem olían hafi runnið út í náttúruna. Getur þetta verið rétt? Væri ekki ráð að burðugri fjölmiðlar en þessi heimasíða könnuðu málið? Þeir gætu komið við í Hvalstöðinni í leiðinni. Þar virðist heldur engu viðhaldi sinnt svo árum skiptir. Hvalstöðvarmönnum kann þó að vera vorkunn vegna peningaleysis. Varla verður það sagt um olíufélögin!