Fara í efni

EKKI EINN Á BÁTI

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur stöðugt í hótunum um uppsögn Stöðugleikasáttmálans svonefnda frá síðastliðnu vori. Nú síðast hótar Vilhjálmur uppsögn vegna Skötuselslaga Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra. Allir vita að deilan um skötuselinn hefur ekkert með þá dýrategund að gera, heldur er litið á lögin í herbúðum LÍU og þar með SA, sem ógnun við kvótakerfið, því aukning í afla fer nú ekki sjálfkrafa í hendur kvótahafa. Þegar kvótakerfið með framsals"rétti" er annars vegar þá er um gríðarlega fjármálahagsmuni að tefla. Þetta þarf fólk að hafa í huga þegar SA auglýsir í þágu almannahagsmuna einsog samtökin gera í heilsíðuauglýsingum í dag. Í auglýsingu SA hafa Vilhjálmur og félagar allt á hornum sér gagnvart ríkisstjórninni í löngu syndaregistri.

Vilja fá peningana til sín

Þar er á lista kvörtun yfir því að ekki skuli dælt fjármagni í svokallaðan Endurhæfingarsjóð.
Ef áform aðila á vinnumarkaði næðu fram að ganga rynnu þangað inn álíka miklir fjármunir og nú fara til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu! Það er þungbært að horfa á það gerast að skorið sé  niður við endurhæfingu hjá fötluðu fólki og sjúku innan alamannaþjónustunnar frammi fyrir þögulum vinnumarkaði sem frá hruni hefur nánast reist þá kröfu eina í velferðarmálum  að fá peninga inn í nýjar stofnanir, nýja sjóði undir eigin handarjaðri.
Í flennigrein á forsíðu Morgunblaðsins á fimmtudag segir, undir fyrirsögninni, ASÍ segist svikið,  að sambandið „krefjist þess" að ríkisstjórnin leggi fram „ekki síðar en á hádegi á mánudag" frumvarp um að framlag í Endurhæfingarsjóð skuli lögþvingað. Gleymum ekki að hér er verið að tala um nýtt kerfi sem  ekki er endanlega mótað! Það verkefni er á vinnuborði stjórnar. Þar koma þeir að málum á meðal annarra, formaður og varaformaður, sem eru þeir Gylfi og Vilhjálmur.

Á meðan Grensás sveltur

Við gerð fjárlaga í haust verður Alþingi enn á ný nauðbeygt til að ræða í þaula niðurskurð í opinbera kerfinu, hvort leggja eigi niður stofnanir eða sameina þær. Framlag ASÍ og SA í þessa umræðu um velferðina, er að heimta milljarða í nýja stofnun sem byggir á mjög umdeildum forsendum og hætt er við að verði beinlínis á kostnað almannaþjónustunnar. Það er ástæða til að óttast að upp spretti af þessari rót tvöfalt kerfi í þeim skilningi að í endurhæfingu eigi eitt að gilda um fólk á vinnumarkaði og annað um þá sem standa þar fyrir utan. Farið er fram með gassagangi af hálfu SA og ASÍ  fyrir eigin sjóð á sama tíma og endurhæfing á Reykjalundi og Grensádeild er svelt og fólk kemst þar ekki að.

Vilja aftur til fortíðar

Á öndverðri 20. öldinni voru velferðarréttindi vinnumarkaðstengd. Það tók áratuga báráttu að gera þessi réttindi almenn. Nú reyna aðilar á vinnuarkaði að skrúfa þessa þróun til baka.
Í umræddri Morgunblaðsgrein segir að fyrir þessum breytingum sé ekki meirihluti „meðal þingmanna stjórnarflokkanna" . Þetta hygg ég að sé rétt. Annað get ég fullyrt,  að í verkalýðshreyfingunni er þetta líka gríðarlega umdeilt. Ég átti aðild að þessu máli sem formaður BSRB á sínum tíma. Þá stóðu menn frammi fyrir „gerðum hlut" af hálfu SA og ASÍ og létu til leiðast, margir fullir efasemda. Innan ASÍ og lífeyrissjóðanna veit ég til að miklar efasemdir hafa einnig verið uppi.

Tekið undir með félagsmálaráðherra

Nú stöndum við að nýju frammi fyrir „gerðum hlut": Mesta tekjuhrapi ríkissjóðs í sögu þjóðarinnar. Sama gildir um fyrirtækin og heimilin. Við slíkar aðstæður ber að endurskoða allar fyrri gjörðir. Líka  Endurhæfingarsjóð vinnumarkaðarins. Spyrja þarf hvort ekki sé  heppilegra að ná fram yfirlýstum  markmiðum með Endurhæfingarsjóði á hagkvæmari og réttlátari hátt með því að styrkja það sem fyrir er, með því að setja  meiri peninga í Grensás og Reykjalund og aðrar stofnanir sem sinna endurhæfingu. Sjúkra- og styrktarsjóðir verkalýðsfélaganna hafi síðan það hlutverk að styðja við bakið á einstaklingunum og veita kerfinu aðhald. Þeir eiga ekki að verða kerfið.  Baráttan um velferðina má ekki hafna í farvegi eiginhagsmuna.
Árni Páll Árnason, félagsmálaráherra hefur lýst yfir áhyggjum yfir því að verið sé að koma á tvöföldu kerfi. Hann er ekki einn á báti. Ég hygg að hann fari hér fyrir meirihlutavilja í þjóðfélaginu.