Fara í efni

EKKI ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐINN TAKK

Öll höfum við puttana krosslagða um að allt fari á illskársta veg með fjármálakerfi landsmanna. Illu heilli er innlendi hluti kerfisins samofinn fjárfestingarævintýrum sem taka til jarðkringlunnar allrar með endalausum krosstengingum innan lands og utan.

Nú er mikilvægt - það er lífsnauðsyn - að markvisst verði unnið að því að vinda ofan af þessum óheillavef sem flækt hefur þjóðina í mestu vandræði sem yfir hafa dunið í seinni tíð. Ég tek undir með Þorvaldi Gylfasyni hagfræðiprófessor að við leitum ráðgjafar hjá Norðurlandaþjóðunum og hugsanlega annarrar aðstoðar af þeirra hálfu einnig. Hinu leyfi ég mér að vara við að leitað verði ásjár hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum einsog prófessorinn leggur til.

Slóð þeirrar stofnunar er þyrnum stráð og sums staðar meira að segja blóði drifin. Alvarlegust eru inngrip þessarar stofnunar í málefni þróunarríkja sem stillt hefur verið upp við vegg, þær þvingaðar til að selja frá sér dýrmætar þjóðareignir og einkavæða sitt innra stoðkerfi svo gera mætti allt saman hinu alþjóðlega auðvaldi að féþúfu. Þetta hafa verið skilyrðin fyrir aðstoð.

Vitnað hefur verið til þess að dæmi séu fyrir því að Evrópuþjóðir hafi leitað ásjár hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það hafi Bretar til dæmis gert fyrir um fjórum áratugum. Þetta er rétt en mér er enn ofarlega í huga frá þessum tíma hver skilyrði sjóðurinn setti fyrir aðkomu sinni: Stórfelldur niðurskurður í velferðarþjónustunni. Undirliggjandi var ofurtrúin á að markaðslögmálin leystu allan vanda. Þessi trú var öllu öðru yfirsterkari.

Þessar áherslur hjá Alþjóðagjaldreyrissjóðnum og systurstofnuninni, Alþjóðabankanum, eru þó miklu sterkari og meiri en þær voru á þessum tíma. Alþjóðagladeyrissjóðurinn hefur því miður reynst í óþægilega ríkum mæli vera handbendi alþjóðaauðvaldsins.

Inngrip af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í íslenskt efnahagslíf og íslenskt samfélag yrði ekki velkomið.