"EKKI Á ÞESSU KJÖRTÍMABILI...."
Vihjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík sagði í fréttum í kvöld að þótt Orkuveita Reykjavíkur yrði gerð að hlutafélagi þá yrði hún ekki seld á þessu kjörtímabili. Takið eftir, ekki á þessu kjörtímabili. Orðrétt sagði hann nákvæmlega þetta: "Slík tillaga verður ekki flutt á þessu kjörtímabili." Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík segist ekki vera hlynntur einkavæðingu orkugeirans "því hann búi yfir íslenskum auðlindum." Samt styður hann tillögu um háeffun Orkuveitunnar sem allir vita að er undanfari sölu. Björn Ingi ber því við að hann vilji stuðla að útrás orkufyrirtækja. Það vil ég líka. Ég spyr hvað standi í vegi þess að sameignarfélagið OR myndi dótturfyrirtæki um þá þætti sem sérstaklega sinni útrásarstarfsemi? Þetta er hægt að gera án þess að gera OR að hlutafélagi.
Hitt er svo gömul saga og ný sem snýr að Framsóknarflokknum og niðurlægingu hans sem aldrei virðist ætla enda að taka. Hvers vegna í ósköpunum þarf vesalings Framsókn alltaf og ævinlega að þjóna einkavæðingarlund Sjálfstæðisflokksins? Þá verð ég að játa að það undrast ég, jafnframt því sem það veldur mér vonbrigðum, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hinn annars hófsami borgarstjóri Reykjavíkurborgar, skuli nú gerast soldát og handlangari í einkavæðingarherferð fjármálabraskara. Hingað til hefur borgarstjórinn ekki látið undan kröfugerðarmönnum úr fjármálageiranum sem heimta að fá afhenta alla arðvænlega starfsemi á vegum ríkis og svietarfélaga. Þetta er stefnubreyting sem kjósendur í Reykjavík hljóta að veita athygli