Fara í efni

Eiríkur Bergmann og Sumardagurinn fyrsti

Sumardagurinn fyrsti þykir mér alltaf bera vott íslenskri bjartsýni. Miðað við veðurfar hér á landi er hann óneitanlega nokkuð snemma ferðinni. En jafnvel þótt snjór sé enn í fjöllum og enn allra veðra von á þessum tíma árs, þá byrja menn á þessum degi að horfa til sumarsins og almennt sameinast menn um að líta björtum augum til framtíðarinnar. Á þessum degi kynda menn því upp góða skapið. Ekki auðnast þetta þó öllum. Það á til dæmis við um Eirík Bergmann Einarsson, sem skrifar í Fréttablaðið í dag. Oft hefur hann skrifað áhugaverðar greinar í blöð. Ekki verður þó sagt að grein hans nú sé í anda þeirrar geðprýði sem flestir reyna að temja sér á þessum degi. Greinin er engu að síður umhugsunarverð.

Viðfangsefni Eiríks er Vinstrihreyfingin grænt framboð og virðist grein hans skrifuð til að koma þeirri skoðun höfundar á framfæri að sá flokkur "sé utangátta" í íslenskri pólitík "einhvernveginn úr takti við þjóðfélagið."

Eiríkur staldrar sérstaklega við þá yfirlýsingu Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns VG, nýlega að breyta þurfi orðræðu í íslenskri pólitík. Eiríkur kemst að þeirri niðurstöðu, að þetta sé til marks um að Vinstrihreyfingin grænt framboð sé búin að gefa upp á bátinn allar tilraunir til að breyta þjóðfélaginu í átt til jafnaðar og félagslegs réttlætis. Ég hef skilið Katrínu Jakobsdóttur svo, að hún telji hið gagnstæða uppi á teningnum: Sú nálgun sem stjórnmálamenn hafi tamið sér í glímu við þjóðfélagsmálin sé á margan hátt stöðnuð og telur hún þörf á róttækri uppstokkun ef okkur eigi að takast að sækja fram af krafti til félagslegra framfara. Hún varar við stöðnun. Ábending hennar er því herhvöt.

Ég get tekið undir það sjónarmið, að flestir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn virðast hafa gefist upp fyrir kaldhamraðri frjálshyggju, sem nú tröllríður íslenskum stjórnmálum, og hafa tekið upp tungutak hennar í ummjöllun um nánast öll samfélagsmál. Sumir hafa jafnvel gefist alveg upp á þvi að hugsa nokkra sjálfstæða hugsun, sem ekki er í samræmi við þessa hugmyndafræði. Þeir allra lötustu láta nægja að fletta upp í ályktunum og tilskipunum Evrópusambandsins til að komast að niðurstöðu um hvað þeim eigi yfirleitt að finnast. Eiríkur Bergmann þekkir þetta eflaust í Evrópusambandsvinafélaginu þar sem hann starfar, ef ég man rétt.

Sem betur fer er þetta þó ekki einhlítt og og reyna margir allt hvað þeir geta til þess að hafa áhrif á þróunina. Þetta á vissulega einnig við innan Evrópusambandsins og gætir nú vakningar á meðal baráttufólks innan verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu. Það hafnar einstefnu markaðshyggjunnar og vill nú aðra nálgun, aðrar lausnir en þær sem lögmál um framboð og eftirspurn hafa upp á að bjóða. Hvað skyldi þetta fólk gera til að telja fólk á sitt band og afla sínum málstað fylgis? Það setur fram rök, máli sínu til stuðnings, á eins markvissan hátt og því framast er unnt og reynir þannig að telja fólk á sitt band. Þetta er gert í orðum og kallast orðræða. Er það ekki hið besta mál?

Ég fagna því að ungt fólk virðist vera að komast á þá bjartsýnu skoðun að hægt sé að temja markaðsöflin og kveða þau niður þar sem þau eiga ekki heima, t.d. innan samfélagsþjónustunnar. Hér á landi er mikið verk óunnið þótt ýmis jákvæð teikn séu nú á lofti, ekki síður í röðum ungs fólks en á meðal okkar sem eigum okkur lengri sögu að baki. En þetta kostar baráttu og er nauðsynlegt að láta ekki bugast þótt á móti blási og úrtölumenn fari mikinn. Alla vega skulum við ekki láta þá, sem ekki auðnast að sjá hvítan blett á tilverunni, spilla gleði okkar. Sjálfir mættu slíkir menn velta því fyrir sér hvort Sumardaginn fyrsti sé ekki, þegar allt kemur til alls, ágætt tilefni til að reyna að sjá til sólarinnar. Ofar skýjum er hún til staðar. Það má ganga að því vísu. Og það er góð tilhugsun.