Fara í efni

EINU SINNI VAR LÍTIL STÚLKA...

Endurminningar Hólmfríðar
Endurminningar Hólmfríðar

Þetta eru lokaorðin í Tvennum tímum, endurminningum Hólmfríðar Hjaltason, sem Elínborg Lárusdóttir skráði. Elínborg var afkastamikill rithöfundur um miðja síðustu öld en þá birtust þessar endurminningar fyrst. Hólmfríður var fædd 1870 og andaðist 1948 rétt áður en ævisaga hennar birtist á prenti.

Því get ég þess að Elínborg Lárusdóttir hafi verið afkastamikill rithöfundur, að bókin er ekki rituð af neinum viðvaningi heldur afburða ritfærri manneskju.

Langömmubarn Hólmfríðar, Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forseti Íslands, ritar formála og eftirmála síðan Soffía Auður Birgisdóttir undir fyrirsögninni Samhengi sögunnar. Þá sögulegu innsýn er lesandanum gagnlegt að fá.

En hvers vegna framangreind lokaorð? Skýring Elínborgar Lárusdóttur er þessi:

„Hólmfríður en nú orðin amma og langamma. Og ekki er ólíklegt, að barnabörnin og barnabarnabörnin heyri einhvern tíma ævintýrið um litlu telpuna, sem lifði á hrakningi og var svo svöng, að hún varð að eta töðu til að sefa hungur sitt. Og þótt það sé sannleikur og ekki séu liðin nema aðeins 62 ár, síðan þetta gerðist, er ekki ósennilegt, að nútíma fólk, sem lifað hefur eintóm góðæri og ekki hefir sjálft reynt né komið í nálægð við neins konar harðrétti, líti á hina raunverulegu sögu litlu stúlkunnar sem eins konar ævintýri og byrji frásögnina á þessa leið: Einu sinni var lítil stúlka..."

Frá því er skemmst að segja að þessi ævisaga bláfátækrar stúlku norðan úr Skagafirði, smáð og hrakin í æsku en metin að verðleikum þegar líður á ævina, er gríðarlega áhrifarík frásögn. Þegar ég slæ þessa stafi á tölvu mína er farið að morgna. Ástæðan er sú að bókina gat ég ekki lagt frá mér fyrr en að loknum lestri hennar. Í rauninni segir það allt sem segja þarf.

Auk ævintýrisins sem bókin greinir frá, er hún stórmerk heimild um atvinnu- og þjóðhætti, sem frá upphafi bókarinnar til loka, samfléttast sjálfri ævisögunni. Þá segir hún margt um stöðu kvenna. Fyrst og fremst gefur hún þó innsýn í hrikalegt hlutskipti fátæks fólks fyrr á tíð og þá sérstaklega þeirra barna sem vegna bjargarleysis foreldranna var komið til vandalausra. Þar var ekki á vísan að róa.
Þá þótti mér fengur að frásögnum af „kynlegu fólki" í mannlífsflórunni. Umfjöllun um Sölva Helgason sem „gerði uppreisn á móti tíðarandanum", nefni ég sérstaklega. Hún þótti mér byggja á mikilli mannvirðingu og innsæi. Hvorki rek ég þá frásögn né annað efni ævisögunnar hér, en hvet sem flesta til að lesa þessa bók. Hún er öllum þörf lesning.

Fyrir þau sem tengja jólin ljúfum vökunóttum yfir bóklestri þá mæli ég með þessu ævintýri um litlu stúlkuna sem lifði Tvenna tíma. Það eru orð að sönnu.