Fara í efni

Einn í heiminum

Mikið held ég að mörgum hafi létt þegar Davíð Oddsson kom fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi til að skýra það út fyrir okkur hvernig Frakkar og allar hinar þjóðirnar misskilja Íraksmálið og hvernig Íslendingar hlutu að styðja árásirnar á Írak. Auðvitað eru allir á móti stríði sagði Davíð, en sumir hafa skilning á stöðunni, aðrir ekki. Þeir sem hafa skilning á stöðunni  telja rétt að ráðast á Íraka. Davíð kvað þetta vera bæði sitt mat og Halldórs Ásgrímssonar. Öll gagnrýni hvort sem hún kemur frá alþjóðalögfræðingasamtökum, mannréttindasamtökum, verkalýðshreyfingu, meirihluta ríkja heims – öll gagnrýni var afgreidd sem léttvæg og byggð á misskilningi. Okkur sem misskiljum stöðuna fannst hins vegar Davíð Oddsson fara með rangt mál í nánast öllu sem hann sagði. En í sjónvarpssettinu fékk hann að mala óáreittur eins og vel haldinn heimilisköttur. Ekki kann ég skýringu á hvers vegna Kastljósfólk hafði þennan hátt á. Ef til vill veldur góðsemi, að Kastljósfólk viti sem er að þeir sem ekki treysta sér í rökræður vilja fá að vera einir í heiminum.