Fara í efni

EINKUNNAGJÖF INDRIÐA


Indriði H. Þorláksson, sem komið hefur að Icesave samningaviðræðunum, hefur nú hafið ritun greinaflokks á Smugunni (smugan.is) þar sem hann reifar sjónarmið sín. Fyrsta greinin hefur þegar birst og er hún harðorð í garð þeirra sem gagnrýnt hafa samningsferlið og fá þeir ofanígjöf af hans hálfu; taldir vera haldnir minnimáttarkennd, þjóðernishroka, heimsfrelsunaráráttu, kveinstöfum og vesældarþráhyggju svo eitthvað sé nefnt. Eins og þessi listi ber með sér er að finna í einkunnarbók Indriða H Þorlákssonar mergjuð hugtök og í sumum tilvikum skemmtileg nýyrði. Við því er ekkert að segja að menn með meiningar viðri þær. Það finnst mér reyndar vera lofsvert og gott í alla staði.
Ég hlakka þó meira til þess að lesa Indriða þegar einkunnargjöfinni lýkur og hann fer að fjalla um efnisatriði málsins. Um þau á opinber umræða að sjálfsögðu að snúast.
Fjöldinn allur hefur tekið þátt í umræðunni á Smugunni og einnig Eyjunni og annars staðar þar sem Smugu-grein Indriða hefur verið tekin upp. Í viðbrögðum við grein Indriða er að finna margar umsagnir, misjafnar eins og gengur. Sjálfur hef ég tekið þátt í umærðunni á Smugunni og læt ég fylgja bút úr annarri athugasemd minni þar auk þess sem ég gef hér að neðan slóðina á grein Indriða.:
„...Í hruninu töpuðu þúsundir einstaklinga, fyrirtækja og sjóða gríðarlegum eignum - þúsundum milljarða. Fólk sem lagt hafði ævisparnað sinn í hlutabréf í fjármálastofnunum, svo dæmi sé tekið, tapaði hverjum einasta eyri. Engar reglur þessu fólki til varnar og þar fyrir utan engir peningar til. Við erum að tala um þúsundir milljarða! Ein af afleiðingum hrunsins er gríðarlegt verðfall á eignum samhliða lækkun á gengi gjaldmiðils okkar - þetta leggst með tvöföldum þunga á fjölskyldur og allt þjóðfélagið. Ég held að það fólk sem missir tök á skuldamálum sínum af þessum orsökum og missir jafnvel atvinnu sína líka verði ekki fyrir minna tjóni en það fólk sem tapaði einhverjum peningum sem varið hafði verið til hlutabréfakaupa.
Á döfinni voru áform um að opna Icesave reikninga víða um heim utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Fólk þar hefði ekki fengið eina krónu bætta við hrun frá íslenska ríkinu. Það hefði einfaldlega ekki komið til umræðu. Hvers vegna? Vegna þess að það hafi verið verra fólk? Ekki „almúgafólk"? Nei, vegna þess að reglur EES svæðisins hefðu ekki náð til þess. Þetta mál snýst um túlkun á regluverki EES. Það er efnið sem ég saknaði í umfjöllun Indriða H. Þorlákssonar, þótt ég virði rétt hans til að gefa okkur sem erum á öndverðum meiði við hann einkunnir...."

http://www.smugan.is/pistlar/fastir-pennar/nr/2918

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/ogmundur-tekur-ord-indrida-til-sin-malsvornin-a-undanlegu-plani-og-stilbrot-af-hans-halfu

http://eyjan.is/blog/2010/03/22/adstodarmadur-steingrims-storyrtur-sakar-andstaedinga-icesave-um-kveinstafi-hroka-og-vesaeldarthrahyggju/

http://eyjan.is/blog/2010/03/22/ogmundur-hafnar-malflutningi-adstodarmanns-steingrims-segir-nalgun-indrida-ad-icesave-ranga/

http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/islendingar-thurfa-ad-supa-seydid-af-sukki-mistokum-afglopum-og-glaepsamlegu-atferli-hrunverja