Fara í efni

Einkavæðingin segir til sín í raforkugerianum

Í sumar hafa raforkumálin verið ofarlega á baugi. Að garði hefur borið erlenda gesti sem varað hafa við einkavæðingu raforkunnar. Vísað hefur verið til illra afleiðinga slíkrar stefnu í Kaliforníu, í ýmsum Evrópuríkjum, nú síðast Ítalíu að ógleymdum grannlöndum okkar, Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Í kjölfar markaðsvæðingar hefur raforkuverðið þar snarhækkað, ekki síst á álagstímum, vegna þess fyrirhyggjyleysis sem sókn í skjótfenginn gróða veldur. Ekki er séð fyrir varaforða þannig að kaupa þarf raforku annars staðar frá dýrum dómum þegar eftirspurnin verður mikil. Á vefriti bendir Rúnar Sveinbjörnsson á að forskriftin að markaðsvæðingu raforkunnar hjá okkur komi frá Evrópusambandinu. Þetta er rétt. Þar er mælt fyrir um aðgreiningu framleiðslu, dreifingu og sölu á raforku. Aðgreining í sérstakar rekstrareiningar þessara mismunandi sviða er til að búa í haginn fyrir markaðsvæðingu raforkunnar.
Meirihlutinn á Alþingi hefur þegar samþykkt raforkulög sem hvíla á þessum grunni. Á ekki að byrgja brunnin áður en barnið dettur í hann – á ekki að afnema raforkulögin áður en það er um seinan? Það vill Rúnar Sveinbjörnsson. Það má taka undir það með honum að furðu sætir hve blindir í trú sinni á markaðshyggju stjórnvöld virðst vera. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar menn hætta að horfa til reynslunnar og neita að draga af henni lærdóm. sjá: http://reykjavik.vg/runarrafdreifing.htm