Fara í efni

EINKAVÆÐINGARFLOKKARNIR TVEIR: SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR OG SAMFYLKING

 Í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins er mjög athyglisverð grein eftir Ólaf Örn Arnarson lækni. Ekki er ofsagt að hann hefur um áratugaskeið verið helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum. Í grein sinni kemst Ólafur Örn að þeirri niðurstöðu að enginn munur sé á stefnu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í þessum málaflokki: "Á landsfundi Samfylkingar nýlega var lögð fram niðurstaða heilbrigðisvinnu Samfylkingar. Ekki stóð til að ganga frá málinu sem landsfundarsamþykkt en hér er um að ræða mjög athyglisverða stefnumótun í þessum málaflokki. Undirritaður hefur sl. 15 ár tekið þátt í að móta ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins og þegar þetta tvennt er borið saman kemur í ljós að stefna þessara tveggja stjórnmálaflokka ...er sú sama."

Í grein sinni rekur Ólafur Örn Arnarsson mjög skilmerkilega hvernig bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tala fyrir einkarekstri og samkeppni innan heilbrigðisþjónustunnar. Ekki  ætla ég  að hrekja ýmsar fullyrðingar læknisins um meinta kosti einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu en margoft hefur verið sýnt fram á að einkarekið heilbrigðiskerfi hefur reynst bæði óskilvirkara og dýrara. Ólafur Örn vitnar í skýrslur OECD en láist að geta þess að á þeim bænum hefur einnig komið fram að nýting fjármuna í íslenska heilbrigðiskerfinu er betri en almennt gerist hjá OECD ríkjunum. Það er hins vegar þakkarvert að okkur sé bent á að enginn munur sé á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu þegar kemur að einkavæðingu velferðarþjónustunnar. Þetta hlýtur að verða umhugsunarefni þeim kjósendum sem vilja standa vörð um velferðarþjónustuna og forða henni frá því að verða gróðaöflunum að bráð.