Fara í efni

EINFÖLD LEIÐ TIL AÐ LAGA RÚV

Röksemd Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, fyrir að breyta Ríkisútvarpinu í markaðsstofnun/SF er að innihaldi til eftirfarandi: Þá losnar stofnunin við afskipti stjórnmálamanna; fólk eins og mig, það er að segja ráðherrann sjálfan. Ef þetta er vandamálið kann ég eitt ráð við því. Það er að láta stofnunina í friði; skipa menn í útvarpsráð eða önnur ráð sem eru hliðhollir stofnuninni en ekki einstaklinga sem brugga henni launráð. Með öðrum orðum, ráðherrann gæti beitt áhrifum sínum til þess að fagleg vinnubrögð væru í heiðri höfð.

Í Kastljósi í kvöld var spurt hvers vegna ekki hafi verið beðið með ráðninguna á fréttastjóra Útvarps þar til frumvarp ráðherrans væri orðið að lögum. Nær hefði verið að spyrja hvers vegna ráðherrann hefði ekki beitt sér í þágu vandaðra og heiðarlegra vinnubragða. Þá hefði ekki þurft neitt frumvarp – eða hvað?

Menntamálaráðherra átti ekki orð yfir því hve fráleit sú krafa hafi verið á Alþingi að óska eftir afskiptum hennar að útvarpsstjóramálinu. Þar var væntanlega vísað í mín ummæli. Ég sagði að almennt væru bein pólitísk afskipti óæskileg en ef um það væri breið samstaða á Alþingi að beita áhrifum til að leysa mál og setja niður deilur þá væri ekkert við það að athuga, heldur beinlínis æskilegt. Það væri nefnilega eitt að nota pólitísk völd í eiginhagsmunaskyni og til að þjóna þröngum flokkshagsmunum og annað að færa það sem úrskeiðis hefði farið til betri vegar.