Fara í efni

Einar K Guðfinnsson missir jafnvægið

Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Einar K. Guðfinnsson, er dagfarsprúður maður. Það hendir þó af og til að tilfinningarnar bera hann ofurliði. Ekkert nema gott um það að segja að menn séu tilfinningaríkir. Hitt er verra þegar óbeislaðir skapsmunir og slæmur málstaður fara saman. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur iðulega tekið að sér það hlutverk í seinni tíð að verja hernaðarstefnu Bandaríkjastjórnar og þá ekki síður stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar við hana. Í dag fjölluðu fjölmiðlar um tilræði við íslenska friðargæslumenn í Kabúl. Af þessu tilefni var leitað til mín á meðal annarra. Ég sagði á þá leið að breið sátt væri um það að Íslendingar sinntu friðar- og hjálparstarfi svo og þróunarsamvinnu af myndarskap. Hins vegar væru menn ekki á einu máli um hvernig við ættum að bera okkur að, inn á hvaða brautir skyldi haldið. Ríkisstjórnin hefði aldrei aflað sér pólitísks umboðs til að koma á laggirnar friðarher en vísi að honum mætti nú sjá í Afganistan. Þá þætti mér dapurlegt að Íslendingar ásamt öðrum NATÓ-ríkjum væri fengið það hlutverk að hreinsa upp eftir bandaríska herinn. Af þessu tilefni skrifar EKG á heimasíðu sína eftirfarandi í dag: "Alltaf má treysta á Vinstri Græna í vitleysunni. Um það hefur verið prýðileg sátt að efla friðargæsluhlutverk okkar þar sem þess hefur verið þörf. Við höfum sent dugmikla einstaklinga til Kosovo og nú til Afghanistan í umboði Sameinuðu þjóðanna. Okkar menn hafa staðið sig framúrskarandi vel. Hlotið lof fyrir dugnað og afköst og nú erum við að leggja aukið fé til þessara verkefna til þess að sinna aðkallandi verkefni. Það eru nýlega afstaðnar kosningar í Afghanistan. Þær tókust betur en margir þorðu að vona. Þeir sem gráta slíkt eru Talibanar og slík öfga og ofbeldisöfl. Þau vilja okkar menn burtu. Þau vilja friðflytjendurna burtu. Þess vegna ráðast þeir á friðargæslumennina. Eigum við að láta að vilja þeirra ? Vitaskuld ekki. Það finnst varla nokkrum manni. Nema ef vera skyldu Vinstri Grænir sem reyna strax að gera starf Íslendinganna í Kosovo og Kabúl tortryggilegt. Þeir eru engum líkir hinir Vinstri Grænu. En hvaða málstað ætli þeir þjóni með slíkum málflutningi?"

Ofangreind yfirlýsing er ósköp hófstillt miðað við það sem þingflokksmaðurinn hafði að segja við áhorfendur og hlustendur Stöðvar 2 og Bylgjunnar í kvöld. Við Einar K .Guðfinnsson vil ég af þessu tilefni segja þetta: Það er langt í frá að talsmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs vilji gera starf Íslendinga í Kosovo og Kabúl tortyggilegt eða lítið úr störfum þeirra. Við erum hins vegar að gagnrýna stefnu ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Við teljum að Íslendingar eigi að beina hjálpar- og þróunarstarfi sínu inn á aðrar brautir en hernaðarlegar, svo sem í hjúkrunar- og læknastarf og í þróunarstarfi eigum við að beina kröftum okkar að sviði sjávarútvegs og jarðvarma svo dæmi séu tekin um svið þar sem við erum fær um að láta gott af okkur leiða. Einar K. Guðfinnsson virðist halda að aðeins sé þörf á þróunar- og hjálparstarfi þar sem Bandaríkjamenn hafa áður farið um  og skilið eftir sig sviðna jörð.  Það er reyndar ömurlegt hlutskipti að gerast hreinusunardeild hjá ameríska hernum. En vel að merkja, Íslendingarnir hafa fengið lof fyrir að standa sig vel við flugumferðarstjórn bæði í Kosovo og Kabúl, en þarf það að vera lögmál að þeir komi aðeins  við sögu þar sem það þjónar hernaðarhagsmunum Bandaríkjamanna og NATO?