Fara í efni

EIN RÖDD Í MÖRGUM FLOKKUM

Hermannalappir
Hermannalappir

Eftir þessar kosningar hefur pólitíkin í íslenskum þingsal færst langt til hægri. Við sem héldum að hinn pólitíski pendúll væri að byrja að snúa aftur til vinstri-félagshyggju höfðum rangt fyrir okkur því nú tók hann afturkipp til hægri-sinnaðrar sérhyggju. Yfir þetta þurfa vinstri menn að leggjast á komandi mánuðum og misserum. Því varla stendur til að gefast upp.

Sjálfstæðisflokkurinn vinnur stórsigur, og það við aðstæður sem þessar og skulu ekki talin upp vafasöm mál sem tengjast flokknum, þau þekkja allir vel. Viðreisn, markaðshyggju-rétt-trúnaðarflokkur nær verulegri fótfestu og má ætla að hann hafi fengið til sin reglustriku/samkeppniskratana úr Samfylkingunni. Það gerði lika Björt framtíð sem er, ef dæma skal af afstöðu til mála á síðasta þingi, fyrst og fremst markaðshyggjuflokkur.

Allt þetta sá ég einhvers staðar frammákonu í Sjálfstæðisflokknum kalla sigur frjálslyndra afla!

Hvílíkur brandari. Þessi öfl hafa ekkert með frjálslyndi að gera. Miklu fremur einsýni, trú á bókstaf markaðshyggju og ef það á að kallast frjálslyndi að ganga erinda fjármála- og gróðaafla á kostnað almannahagsmuna, þá er það afbökun á hugtaki. Og slíka afbökun hafa þessir aðilar náttúrlega ótæpilega ástundað með því að auglýsa að þeir séu á móti „sér"hagsmunum.

Píratar fagna griðarlega og verð ég að játa að ég skil ekki vel þann mikla fögnuð. Píratar þóttu góð hugmynd, sem mældist upp á þrjátíu prósent í fjarlægð, en í nálægð fór hún niður um heilan helming. Annars ætla ég að segja sem minnst um Pírata að sinni, hafa sama hátt á og þeir hafa gert, að gefa ekki upp afstöðu fyrr en hún kemur í ljós. Varla verður þó  beðið miklu lengur eftir því að Píratar sýni á spil sín að öðru leyti en að vilja hafa allt gagnsætt og samkvæmt regluverki, sem að sjálfsögðu er góðra gjalda vert, en stundum þarf að taka afstöðu til innihalds. Það hefur nokkuð vafist fyrir fólki á þeim bænum.  

Samfylkingin beið afhroð og átti annað og betra skilið, einkum þeir einstaklingar sem nú eru komnir út í kuldann eftir mikið framlag til stjórnmálanna. Oft hefur pólitík Samfylkingarinnar farið fyrir brjóstið á mér, einkum ESB skrúfan á sálu þess flokks. En Samfylkingin hafði líka innan sinna vébanda hefðbundinn velferðar kratisma og eru það hrikaleg tíðindi að honum hafi verið slátrað.

Að vísu má til sanns vegar færa að kratisminn hafi fundið sér bústað í Vinstri hreyfingunni grænu framboði sem varla getur þó glaðst yfir þessum úrslitum við þær aðstæður sem við búum nú við. Vonir stóðu til talsvert meiri árangurs. Þess verður nú beðið af mörgum að sjá með hvaða hætti VG vill sýna að flokknum sé best treystandi eins og hamrað var á í auglýsingum fyrir kosningar. Sú áhersla hefur rifjað upp ýmsar minningar.

Stjórnmálamönnum verður tíðrætt um hinn mikla fjölbreytileika á nýju þingi. Vissulega sjáum við þar nú marga flokka en ég sé ekki betur en að flestir tali þeir einni röddu.

En sjáum hvað setur og kemur dagur eftir þennan dag.