Fara í efni

EIGUM VIÐ AÐ LÁTA AÐRA UM STJÓRN EFNAHAGSMÁLA...EÐA?

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, skrifar einstaklega skemmtilega grein í Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins um fjármál og efnahagsmál. Þorvarður Tjörvi fjallar þar um evruna og hvort æskilegt væri að taka hana upp sem gjaldmiðil hér á landi.
Í grein sinni teflir hagfræðingurinn fram valkostum varðandi gjaldmiðilinn án þess þó að taka sjálfur afstöðu í þessari grein. Gjaldmiðlinum líkir Þorvarður Tjörvi við bíl og segir að það hljóti að ráðast af notagildinu hvers konar bíl við veljum okkur. Krónunni megi líkja við smábíl. Slíkir bílar séu góðir til síns brúks. Vandinn sé hins vegar sá að Íslendingar hafi ekki virt umferðarreglur og hunsað viðvörunarljós. Fyrir bragðið lendum við í hverju slysinu á fætur öðru. Það sé sérstaklega varhugavert þegar í hlut eiga lítil og veikburða ökutæki. Í framhaldinu spyr hagfræðingurinn hvort við ætlum að læra af reynslunni og verða ábyrgðarfyllri ökumenn, eða hreinlega leggja bílnum, stíga upp í evrustrætóinn og láta aðra um aksturinn?
Samlíking Þorvarðar Tjörva hittir í mark, hún er óneitanlega snjöll og nær þeim augljósa tilgangi höfundar að fá lesandann til að hugsa.
Ég vil velja þann kost að læra af reynslunni og sýna meiri ábyrgð í umferðinni. Ég verð hins vegar að trúa hagfræðingi Seðlabankans fyrir því að ég óttast að núverandi bílstjórar séu tornæmari en svo að þeir komi til með að læra af eigin mistökum. Þess vegna þarf að setja nýja ökuþóra undir stýri. Til þess gefst tækifæri í vor.

Grein Þorvarðar Tjörva Ólafssonar er HÉR.