Fara í efni

EIGNARRÉTTUR Á KOSTNAÐ MANNRÉTTINDA?


Oft hef ég velt vöngum yfir því í ræðu og riti hve mjög einkaeignarréttur hafi verið í sókn á undanförnum áratugum, stundum á kostnað almannahagsmuna og jafnvel mannréttinda. Með því að velta þessu upp er ég ekki að halda því fram að eignarréttinn eigi ekki að virða heldur aðeins að setja fram þá eðlilegu spurningu hvernig eigi að forgangsraða við þröngar aðstæður - hvoru beri að raða framar "rétti" innistæðueiganda bankabókar Icesave reiknings annars vegar eða mannréttindum sjúklings á Landspítala og kjörum þess sem allt sitt á undir greiðslum hins opinbera hins vegar.

Heimili eða Gvendarbrunnar?

Þegar rætt hefur verið um almannarétt gagnvart einkaeignarrétti í tengslum við orku eða aðrar auðlindir leikur enginn vafi á að einkaeignarrétturinn hefur verið í sókn á undanförnum áratugum og er áhyggjuefni hve hægt gengur að breyta áherslum hvað þetta snertir. Því er jafnvel haldið fram að það sé hagur almennings að treysta enn frekar í sessi einkaeignarrétt hinna fáu á auðlindum sem öðru fólki finnst auðsætt að eigi að vera okkar allra. Í mínum huga er eignarréttur á heimili, landbúnaðarjörð, almennu markaðsfyrirtæki eitt, eignarréttur á Gvendarbrunnum annað. Þá geta stærðargráður auðsins einnig valdið eðilsbreytingu hvað réttmætt getur kallast. Sitthvað er að standa á eignarrétti yfir fimm hundruð milljónum annars vegar eða fimm hundruð milljörðum hins vegar! 

Einkagræðgin reið okkur nær að fullu!

Ætla mætti að hér á landi hefðum við lært okkar lexíu eftir að einkaréttarhagsmunir hafa nær riðið almannahagsmunum að fullu hér á landi!
Einkaeignarrétturinn á líka góða og áhrifamikla vini. Til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var upphaflega stofnað til að verja einkaeignarréttinn, ekki almannahagsmuni, og hefur AGS verið trúr hlutverki sínu einsog við þekkjum. Evrópusambandið hefur jafnt og þétt fært sig í þessa áttina með stöðugt meiri áherslu á markaðslausnir, jafnvel innan ramma velferðarkerfisins.

ESB, mannréttindi og einkaeignarréttur


Hinn 28. janúar efndu Mannréttindastofnun HÍ, lagadeild HR og Mannréttindaskrifstofa Íslands, í samstarfi við Evrópusambandið, til umræðu um svokallaða réttindaskrá ESB, sem er ætlað að treysta enn frekar mannréttindi þeirra sem innan sambandsins búa. Vakti ég þá máls á þessu sjónarhorni sem ég tel þess virði að gaumgæfa nánar í umræðu um áherslur á sviði mannréttinda. Ekki gat ég verið nægilega lengi á þessari ráðstefnu til að fylgjast með því hvort ég hafi átt skoðanasystkini í hópi fyrirlesara eða ráðstefnugesta.
Mig grunar þó að skoðanasystkinum mínum í þessum efnum eigi eftir að fara fjölgandi eftir því sem pólitískir vorvindar bræða klakadrönglana sem enn eru alltof stórir eftir frostaáratugi frjálshyggjunnar.

Slóð: http://www.innanrikisraduneyti.is/radherra/raedur-og-greinar-ogmundar-jonassonar/nr/26980