Fara í efni

Eiga skatthirslurnar að standa öllum opnar?

Birtist í Morgunpósti VG 31.08.04
Það er skrýtið að á sama tíma og rauðu ljósin blikka um heim allan vegna slæmrar reynslu af einkavæðingunni fyllast menn eldmóði hér á landi sem aldrei fyrr og vilja selja allt steini léttara eða koma því á markað. Að vísu hefur orðið ein grundvallarbreyting. Jafnvel örgustu markaðssinnar eru komnir á þá skoðun að ekki gangi að láta notendur borga fyrir menntun og heilbrigðisþjónustu. Þessa starfsemi verði að fjármagna með sköttum en ekki notendagjöldum eins og viðkvæðið var fyrir fáeinum árum. Verkalýðshreyfing og félgshyggjuöfl í stjórnmálum hafa hamarð á því að slíkt væri ávísun á félagslega mismunun. Þessi málflutningur hefur hrifið og það er ánægjulegt dæmi um árangur, eins konar varnarsigur mitt í allri einkavæðingunni.
Í vikunni sem leið heyrði ég ágætt útvarpsviðtal við Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík. Að venju talaði hún af miklum eldmóð og sannfæringarkrafti. Hún sagði margt ágætt í þessu viðtali þótt ég væri henni ósammála í ýmsum grundvallaratriðum. Hún gaf sterklega í skyn að einkarekstur væri almennt hagkvæmari en ríkisrekstur. Ekki tel ég að reynslan sýni að það eigi við á sviði almannaþjónustu.

Markmiðin með rekstrinum skipta máli

Hinu var ég sammála í málflutningi hennar að gera greinarmun á einkarekstri, annars vegar sjálfseignarstofnunum sem ekki ættu að skapa eigendum sínum arð og hins vegar rekstri sem hefur  slíkt að markmiði. Á þessu tvennu er vissulega grundvallarmunur. Á þann mun hef ég ævinlega lagt áherslu á í mínum málflutningi og tekið sem dæmi dvalarheimili aldraðra að Hrafnistu annars vegar og Sóltúni  hins vegar. Arðsemiskrafan er við lýði á Sóltúni – það heimili er beinlínis sett á laggirnar til að skapa eigendum sínum arð og er það skattborgaranum dýrasta elliheimilið í landinu. Hrafnista er hins vegar sprottin upp úr verkalýðssamtökum og tilgangurinn sá einn með starfseminni að sinna brýnni þörf.
En þótt rektor Háskólans í Reykjavík stilli sér upp með Hrafnistu, SÍBS og öðrum sjálfseignarstonunum að þessu leyti fer því fjarri að hún sé laus allra mála gagnvart skattborgaranum.

Hagsmunir skattgreiðenda

Þannig þarf að spyrja hvort eðlilegt sé að hver og einn sem lætur sér til hugar koma að setja á fót dvalarheimili fyrir aldraða eða reka háskóla hafi sjálfkrafa rétt á peningum skattborgarans. Þarf ekki lýðræðisleg ákvörðun að búa þar að baki? Fulltrúar á Alþingi og í sveitarstjórnum hafa m.a. það hlutverk að gæta hagsmuna skattborgarans.
Það er of mikil einföldun að stilla dæminu upp eins og stundum er gert að fjárveitingar ríkisins eigi einfaldlega að elta nemendurna. Háskólar sinna margvíslegu hlutverki bæði í rannsóknum og annarri starfsemi. Umfang slíkrar starfsemi getur ekki í öllum tilvikum ráðist af sveiflukenndum áhuga nemenda.
Ég hjó eftir því að Guðfinna Bjarnadóttir sagði að einkareknir skólar yrðu að standa sig ella misstu þeir samninginn við ríkið. Hver fylgist með því að slíkar stofnanir séu vanda sínum vaxnar? Hvað þyrfti að gerast til að Háskólinn í Reykjavík yrði af ríkisstuðningi?

Einkarekinn háskóli á Vestfjörðum?

Ég heyri ekki betur en Sjálfstæðisflokkurinn sé farinn að tala fyrir því að nýr háskóli á Vestfjöðrum verði einkarekinn. Láta menn sér til hugar koma, að ef þetta yrði ofan á, að sá skóli yrði einhvern tímann sviptur réttindum jafnvel þótt einhverjum þætti ástæða til slíks í menntamálaráðuneytinu? Halda menn kannski að þá væri til staðar á Ísafirði nægilega öflugur keppinautur sem gæti tekið við rekstrinum? Sjá menn ekki að þetta er rugl? Í þessum skilningi er er enginn raunverulegur samkeppnismakaður til staðar.
Þegar starfseminni hefur verið komið á fót á annað borð þá er hún þar til frambúðar – alla vega um alllangt skeið. Ég fæ ekki séð að hægt sé að réttlæta það að allir sem vilja starfa á verkefnasviði ríkis og sveitarfélaga eigi að öðlast sjálftökurétt í vasa skattborgarans. Eru markaðshyggjumenn ekki komnir út á nokkuð hála braut?