Fara í efni

EFTIRMINNILEG HEIMSÓKN

ÖJ - Indland - feb -2013
ÖJ - Indland - feb -2013

Margt eftirminnilegt gerðist á árinu sem nú er senn á enda runnið. Í mínum huga er ofarlega á blaði heimsókn á munaðarleysingjahæli í Kolkatta á Indlandi í febrúarmánuði á þessu ári. Þar hitti ég Lísu frá Svóþjóð en í frumbernsku hafði hún haft viðdvöl á þessu sama munaðarleysingjaheimili og ég heimsótti nú ásamt samstarfsfólki úr Innanríkisráðuneytinu og frá Íslenskri ættleðingu.

„...Þar sem ég sat í forstofuganginum og drakk te, sá ég inn í svefnsalinn þar sem Lísa var að gæla við börnin sem þar voru í vöggum sínum. Mér fannst hún vera stóra systir að láta vel að litlum systkinum sínum. Væntumþykjan og nærgætnin lýsti af henni og birtist í hverri hreyfingu. „Nú get ég aftur farið heim",  sagði hún. Nú væri hún tilbúin. En hún hefði þurft að gera þetta. Finna uppruna sinn og verða sátt við hann. En sjálf væri hún sænsk, ætti sænska fjölskyldu og allt hennar líf hefði verið sænskt. En þennan bakgrunn vildi hún einnig gera að sínum. Enda væri hann hluti af tilveru sinni.

Lísa var ekki eini sjálfboðaliðinn á heimilinu. Þarna var líka Sarida. Hún var bókhaldari að atvinnu en kom á kvöldin og um helgar til sjálfboðaliðstarfa á þessu heimili fyrir munaðarlaus börn. Hún sagði að starfið þar veitti sér hamingju og fyllti hjarta sitt friði.

Reyndar var það nánast heilög stund sem við áttum þarna á munaðarleysingjaheimilinu, ráðuneytisfólk og fulltrúar Íslenskrar ættleiðingar. Heimilið var stofnað fyrir um þrjátíu árum þannig að fyrstu börnin sem voru ættleidd þaðan eru nú komin undir þrítugt eða jafnvel inn á fertugsaldurinn. Stofnendurnir voru úr sömu fjölskyldu og enn annast heimilið. Það er rekið fyrir söfnunarfé og var greinilegt að það var ekki gert af miklum efnum. Allt tal þeirra sem þarna störfuðu var í anda þeirra Lísu og Saridu. Fólkið vann af væntumþykju og hugsjón.

Umbunin var brosið. „Þegar við fáum fyrsta brosið, þá hlýnar okkur um hjartarætur", sagði forstöðukonan okkur. Svo benti hún á einstaklega fallegan lítinn dreng, sem brosti sínu blíðasta. „Hann fannst nokkurra daga gamall í plastpoka á ruslahaugi." Þá hafi hann þegar verið kominn með bitsár eftir rottur. Nú biði hann þess að komast í hlýjan foreldrafaðm. " (sjá nánar:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/lisa )

Á myndinni að ofan má m.a. sjá okkur Hörð Svavarsson formann Íslenskrar ættleiðingar og Guðmund Eiríksson sendiherra Íslands yfir rúmi litla drengsins sem vísað er til í tilvitnuðum texta hér að framan.     

Sjá nánar:
http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28430

http://www.isadopt.is/is/felagid/frettir/frabaer-heimsokn-i-barnaheimilid-okkar-a-indlandi

http://vefblod.visir.is/index.php?s=6811&p=147232