Fara í efni

EF RÍKISENDURSKOÐANDI VILL SÝNA GOTT FORDÆMI...

Í vikunni sem leið var nokkuð fjallað um nýja skýrslu frá Ríkisendurskoðun þar sem fjallað var um framúrkeyrslu ríkisstofnana og hvernig bregðast mætti við þegar þær færu fram úr fjárlagaheimildum. Vakti athygli sú makalausa tillaga stofnunarinnar að við slíkar aðstæður ætti að stöðva fjárstreymi til viðkomandi stofnana og frysta laun starfsfólksins! Ef til vill þyrfti að breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna svo unnt væri að gera þetta snurðulaust! Við þessu var brugðist á vettvangi BSRB (sjá hér) og í kjölfarið í fjölmiðlum.

Fyrrnefndar hugmyndir Ríkisendurskoðunar fengu falleinkunn enda ótrúlega lítt grundaðar og má reyndar furðu sæta að annað eins sé sett á blað af hálfu stofnunar sem vill láta taka sig alvarlega.

Auðvitað geta framúrkeyrslur verið af ýmsum toga.
Í fyrsta lagi eru fjárlagaheimildir til ríkisstofnana iðulega óraunsæjar. Fjárlaganefnd hefur með öðrum orðum einfaldlega skammtað of naumt og í engu samræmi við þeir skyldur sem löggjafinn ætlar þessum stofnunum að rækja. Í slíkum tilvikum liggur sökin hjá fjárveitingavaldinu. Vill ríkisendurskoðandi láta refsa starfsfólki þeirra stofnana sem eru fórnarlömb óvandaðra vinnubragða fjárveitingarvaldsins?
Í öðru lagi geta ófyrirséð tilvik valdið vandanum. Þetta getur gerst á sjúkrastofnunum, hjá lögreglu og landhelgisgæslu, svo dæmi séu tekin. Á að refsa starfsfólki á sjúkrahúsi fyrir að hafa tekið til hendinni í stórslysi?  
Í þriðja lagi höfum við orðið vitni að því að stofnunum er þröngvað til kerfisbreytinga með því að svipta þær rekstrarfjármagni. Þetta gerðist á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, svo dæmi sé tekið, þegar ákveðið hafði verið að þvinga spítalann til að markaðsvæða hluta starfsemi sinnar. Er ríkisendurskoðandi að leggja slíkum þvingunaraðgerðum lið með því að gefa grænt ljós á að niðurskurður af pólitískum toga verði látinn bitna á starfsfólki.
Í fjórða lagi getur framúrkeyrsla verið til komin vegna þess að ekki er haldið nægilega vel á fjármunum innan viðkomandi stofnunar eða að sýna megi meiri ráðdeild og spara fjármuni. Stöldrum ögn við þetta.

Í blaðaviðtölum hefur ríkisendurskoðandi skýrt frá sparnaðaraðgerðum innan eigin stofnunar. Allra leiða hafi verið leitað til að draga úr tilkostnaði, jafnnvel hafi starfsmenn fallist á launalækkun. Við þurfum að sýna öðrum gott fordæmi, lýsir ríkisendurskoðandi opinberlega yfir, nokkuð ánægður með sig. Launalækkunin þykir mér fráleit ef launin eru á annað borð réttlát og umsamin. Staðnæmumst hins vegar við það að leitað skuli hafa verið eftir samstarfi starfsmanna um sparnað. Svo lætur ríkisendurskoðandi alltént á sér skilja að um sparnaðinn hafi verið samstaða innan stofnunarinnar. Allir þættir starfseminnar hafi verið vegnir og metnir og hafi víða fundist leiðir til að spara. Ágætt, prýðilegt segi ég. Þetta eru þær aðferðir sem við hjá BSRB höfum talað fyrir: Breiðri samstöðu og samvinnu um skynsamlega ráðstöfun fjármuna í opinberum rekstri. Þessi leið hefur stundum verið farin og jafnan gefið góða raun. Ég minnist þess í miklu sparnaðarátaki í tíð Ragnars Arnalds sem fjármálaráðherra upp úr 1980 og tíu árum síðar var þessi aðferðafræði aftur upp á borðum – skömmu áður en Davíð Oddson hóf feril sinn sem verkstjóri í Stjórnarráðinu.

Ég fæ ekki betur séð en Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi tali fyrir þessari aðferðafræði innan eigin stofnunar. Gagnvart öðrum predikar hann hins vegar valdboð og hefndaraðgerðir. Mín ráðlegging til ríkisendurkoðanda er þessi: Ef þú vilt verða öðrum gott fordæmi skaltu gefa ráðleggingar sem þú sjálfur værir reiðbúinn að fylgja. Og síðast en ekki síst, ef Ríkisendurskoðun ætlar ekki að láta einangra sig og líta á sig sem þjónustustofnun við pólitískt framkvæmdavald væri ráð að bera meiri virðingu fyrir réttindum launafólks í starfi hjá hinu opinbera en fram kemur í þessari síðustu skýrslu stofnunarinnar.