Fara í efni

EES MÁ EKKI BYGGJA Á NAUÐUNG

Birtist í 24 Stundum 30.11.07.
Þjónustutilskipun Evrópusambandsins hefur verið mikið hitamál allar götur frá því fyrstu drögin komu fram 2004. Deilt hefur verið um hvar markalínur milli þjónustu hins opinbera og almenna markaðarins liggja og hvort markaðsvæða eigi opinbera þjónustu. Verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur krafist þess að öll velferðaþjónusta standi utan markaðstorgsins og náði hún baráttumarkmiðum sínum fram að hluta.  Það er hins vegar raunveruleg hætta á því að við innleiðingu tilskipunarinnar muni verði þrengt að rekstri almannaþjónustunnar og tilraunir eru uppi um að fella hluta opinberrar þjónustu á ný undir tilskipunina.
Í Noregi hefur nú hafist umræða um hvort til greina komi að beita neitunarvaldi skv. EES-samningum. Tveir ríkisstjórnarflokkanna VS, Vinstri-sósíalistar og Miðflokkurinn, segja þetta koma til greina. Verkamannaflokkurinn er því hins vegar andvígur. Fyrir nokkrum misserum lýsti Gerd Liv Valla, þáverandi forseti norska Alþýðusambandsins, því yfir að sér þætti beiting neitunarvalds vel koma til álita. Núverandi forysta sambandsins hefur hins vegar ekki tekið afstöðu. Það hefur þó stærsta aðildarfélag þess gert, Fagforbundet, sem og Flutningaverkamenn.
Félögin telja að fráleitt sé að fallast á tilskipanir frá Evrópusambandinu, sem takmarki rétt aðildarríkja – og þeirra ríkja sem aðild eiga að hinu Evrópska efnahagssvæði – til að skipuleggja eigin velferðarþjónustu. Neitunarvaldið hafi verið sett í EES samninginn til að nýta það en ekki hafa það einvörðungu til sýnis. Þetta sagði einnig Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs og formaður Verkamannaflokksins áður en samningurinn var staðfestur árið 1992. Jonas Gahr Stør, utanríksráherra, hefur í reynd tekið undir þetta sjónarmið í ræðu á norska Stórþinginu. 
Ef Norðmenn beita neitunarvaldi þarf að taka málið upp á samráðsvettvangi EES.  Ef EES samningurinn þolir ekki eigin ákvæði  þarf einfaldlega að taka hann til endurskoðunar – en þó ekki til að þrengja að lýðræðinu og sjálfræði þjóðanna. Beiting neitunarvalds yrði Evrópusambandinu áminning um að miðstjórnunarárátta grefur undan samstarfi sem á ætíð að grundvallast á fúsum og frjálsum vilja en ekki nauðung.