Fara í efni

DÓMUR Í FLÓKINNI STÖÐU

5000 krónur
5000 krónur

Um miðja vikuna féll mikilvægur dómur í Hæstarétti. Ágreiningsmálið voru greiðslur til kröfuhafa gamla Landsbankans. Í dómsúrskurðinum kemur fram að slitastjórn gömlu bankanna geti ætíð greitt kröfuhöfum í krónum. Þetta þýðir að slitastjórnum föllnu bankanna beri engin skylda til að greiða kröfuhöfum í gjaldeyri. Þvert á móti þá eigi sú meginregla að gilda að þeim sé einvörðungu greitt í krónum.

Icesave í krónum

Í Icesave deilunni  uppástóðu Bretar og Hollendingar að okkur bæri að borga út í gjaldeyri jafnframt því sem þeir sögðu að íselnskir skattgreiðendur væru að fullu ábyrgir fyrir skuldbindingum Landsbankans, aðstandanda Icesave reikninganna, enda væri hann íslenskur banki. Íslenskur banki var hann vissulega og urðu margir til að benda á að ef einhver ætti eitthvað sökótt við hann skyldi hann sækja það sakarefni fyrir íslenskum dómstól. Nú er okkur sagt í ofanálag að útgreiðslur úr þrotabúi fyrir slíkum dómi skuli vera í íslenskum krónum.

Gríðarlegir fjármunir

Í úttekt Morgunblaðsins um nýfallinn Hæstaréttardóm segir: „ Niðurstaða dómsins gæti haft mikla þýðingu fyrir uppgjör gamla Landsbankans, Glitnis og Kaupþings. Fram til þessa hafa slitastjórnir Glitnis og Kaupþings stefnt að því að ljúka við nauðasamninga, sem voru sendir til Seðlabanka Íslands í árslok 2012, svo hægt sé að hefja útgreiðslur í gjaldeyri til kröfuhafa. Samtals nema kröfur gömlu bankanna 2.300 milljörðum."
Seðlabankinn hefur sem kunnugt er ekki viljað veita undanþágu frá gjaldeyrishöftum til ða greiða út kröfur í gjaldeyri og hefur það komið í veg fyrir nauðasamninga. Svo er að skilja að dómurinn geti ýtt undir að búin fari í þrotameðferð og að skiptastjórar greiði kröfuhöfum í  íslenskum krónum. Þá væri verkefnið að koma erlendum eignum í gjaldeyri sem skipt yrði fyrir krónur. Með þessu móti kæmum við til með að komast yfir gjaldeyri sem okkur sárlega vantar.

Sameiginlegur höfuðverkur

Það yrði síðan höfuðverkur kröfuhafa að koma krónum sínum út úr landinu - eða í fjárfestingar innan lands.
Hvoru tveggja gæti einnig orðið okkar höfuðverkur! Því eftir stendur að inni í íslensku hagkerfi er fjármagn sem vill komast út, og ef ekki, gæti valdið þenslu, til dæmis á húsnæðismarkaði, ef fjárfestingum yrið beint þangað í stórum stíl. Öllu máli skiptir að ráðstöfun þessara fjármuna - hvort sem yrði brotthvarf úr landi eða innlend fjárfesting -  verði með þeim hætti að valdi samfélagi okkar sem minnstum skaða.

Geta ekki horfst í augu við veruleikann

Enn um sinn þurfum við á gjaldeyrishöftum að halda. Þau eru varnavopn íslensks samfélags við erfiðar aðstæður. Við erum reglulega minnt á það í fréttum að forsvarsfólk margra mikilvægra samtaka, svo sem Samtaka iðnaðarins og SA, virðist ekki megna að að horfast í augu við þessar aðstæður! Stundum er þetta kallað veruleikafirring.