Fara í efni

Davíð og Halldór sanni mál sitt

Birtist í Fréttablaðinu 24.03.04.
Ár er nú liðið frá því Bandaríkjamenn ásamt Bretum og með stuðningi nokkurra bandalagsríkja, hófu árás á Írak sem endaði með hernámi landsins fáeinum vikum síðar. Frá þessum tíma er mikið vatn runnið til sjávar. Það er þó ekki fyrr en á allra síðustu vikum að þessir atburðir og þá sérstaklega aðdragandi þeirra er að taka á sig skýra mynd.

Olíuhagsmunir tryggðir

Paul O’Neill, fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Bush, hefur staðfest að í upphafi valdaferils forsetans, hafi komið skýrt fram á ríkisstjórnarfundum, að ákveðið hafði verið að hernema Írak til þess að tryggja bandaríska olíuhagsmuni. Og í lok síðustu viku upplýsti Jay Garner, sem stjórnaði “uppbyggingarstarfinu” í Írak  fyrir hönd bandarísku herstjórnarinnar, í viðtali við breska sjónvarpið, BBC, að hann hefði verið ósammála þeim sem réðu ferðinni innan Bandaríkjastjórnar að fresta kosningum í Írak. Merkilegastar voru þær yfirlýsingar Garners í þessu samhengi, að ágreiningurinn um tímasetningu kosninganna hefði snúist um einkavæðingu og ráðstöfun almannaeigna í Írak. Allt ber að sama brunni. Hagsmunir bandarískra auðhringa hafa frá upphafi ráðið för. Fyrrgreindur O´Neill hafði einnig upplýst að á fyrstu ríkisstjórnarfundunum í stjórnartíð Bush hefði verið ákveðið að hefja undirbúning að útfærslu á yfirtöku á olíuauðlindum Íraka! Þetta hafði Bush forseti sagt að væri forgangsmál og þegar ákveðið: Ykkar er að finna réttlætinguna, “find me the reasons”.
Allt er þetta harla fróðlegt í ljósi þess málatilbúnings sem spunninn var til að réttlæta árásina á Írak í augum heimsins. Áherslurnar breyttust vissulega í tímans rás. Einhvern tímann voru það meint tengsl við Al-Qaeda hryðjuverkasamtökin, í annan tíma var réttlætingin að losna við Saddam einræðisherra en sú ástæða sem lengstum var notuð, og alla tíð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, var sú ógn sem stafaði af Írökum vegna gereyðingarvopna sem þeir voru sagðir eiga.

Á ósannindum byggt

Nú hefur komið rækilega á daginn að allt tal um sannanir um tilvist gereyðingarvopna í Írak reyndist á ósannindum byggt. Almenningur var hins vegar harla varnarlaus því stöðugt var gefið í skyn að ráðamenn vissu meira en við hin. Upplýsingarnar, sem komnar væru frá leyniþjónustum, væru hins vegar viðkvæmar og yrðu menn að treysta því að rétt væri með farið. Utanríkisráðherra Íslands, Halldór Ásgrímsson, var einn þeirra sem var í innsta hring. Opinberlega lýsti hann yfir að hann hefði fengið að sjá sannanir fyrir gereyðingarvopnum í Írak, þær yrðu gerðar opinberar síðar. Sjálfur hefði hann sannfærst.
Í mörgum þeim ríkjum sem tengdust árásinni, bæði sjálfum árásarríkjunum og þeim sem veittu þeim “staðfastan stuðning” eins og það var kallað, en í þeim hópi eru Íslendingar, eru ráðamenn nú krafðir sagna og látnir gera grein fyrir yfirlýsingum af því tagi sem utanríkisráðherra Íslands gaf á sínum tíma.
Á útifundi við Stjórnarráðið í Reykjavík síðastliðinn laugardag voru þessi ummæli og fleiri af svipuðum toga, einkum frá oddvitum ríkisstjórnarflokkanna, þeim Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni, rifjuð upp. Einnig hlutur íslenskra fyrirtækja í stríðsrekstri Bandaríkjanna á undanförnum misserum. Þar komu við sögu flugfélögin Atlanta og Flugleiðir í tengslum við hergagnaflutninga. Fleiri íslensk fyrirtæki voru nefnd á nafn.

Íslendingar bera fulla ábyrgð

Það er kominn tími til að Íslendingar átti sig á ábyrgð sinni í þessum stríðsrekstri. Við berum þar fulla ábyrgð. Utanríkisráðherra Íslands lýsti því yfir síðastliðið vor að hann þakkaði sínum sæla að þurfa ekki að senda íslenska menn í stríðið en bætti við, "ég dáist hins vegar að mönnum eins og Tony Blair sem geta tekið slíkar ákvarðanir með yfirveguðum hætti".
Nú hefur komið í ljós að yfirvegun þeirra Blairs og Bush byggðist fyrst og fremst á því að blekkja eigin þjóðir og reyndar heimsbyggðina alla. En það eru fleiri en þeir sem bera hér ábyrgð og er það skylda okkar að líta í eigin barm.
Er ekki kominn tími til að hinir sannfærðu ráðamenn Íslands, sem sögðust hafa fengið að sjá sönnunargögnin, geri okkur nú grein fyrir því sem þeim var sýnt? Þurfa þeir ekki að gera þetta frammi fyrir þjóðinni? Eða finnst þeim það ekki skipta neinu máli? Ég ætla að þjóðinni finnist það skipta máli hvort forsvarsmenn hennar fara með rangt mál eða rétt. Fyrir Íslendinga snýst þetta um að axla ábyrgð á þeirri afstöðu sem tekin er á alþjóðavettvangi.