Fara í efni

DANSI DANSI DÚKKAN MÍN

Björgólfur Guðmundsson svífur inn gólfið á gamla íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu í Reykjavík. Margir bestu listamenn þjóðarinnar – leikarar Þjóðleikhússins -  höfðu beðið komu hans af eftirvæntingu. Hljómsveit hóf að leika þegar formaður stjórnar Landsbankans og helsti eigandi bankans gekk í salinn. Hann var kostunarmaður nýs sviðs í leikfimihúsiunu. Allir voru þakklátir. Geysilega þakklátir. Þarna yrði hægt að sýna mikilvæg listaverk. Verk sem menn án efa telja að eigi eftir að lyfta andanum.
Þjóleikhússtjóri – ég sá ekki betur í ítarlegri sjónvarpsfréttinni en það væri hún - féll í opinn dansfaðm hins silkiklædda velgjörðarmanns leiklistarinnar. Á gólfinu var upp búið hásæti. Hlæjandi féll Björgólfur Guðmundsson bankaeigandi í sætið; allir í fínu skapi, mikið klappað – góður mórall – eins og vera ber þegar menn eru að fagna frábæru framtaki. Hljóta ekki allir að taka þátt í fögnuðinum og gleðinni? Eða hvað? Þarf ef til vill að hugsa þetta mál ögn nánar? Er það gott þegar stjórnvöldin hafa fært fjármálamönnum með gjöfum og skattalækkunum bæði peninga og völd sem opna þeim leið að öllum hásætum þjóðarinnar? Er það gleðiefni þegar listamenn okkar – fólkið sem maður hélt að öllum fremur stæði vörð um sjálfsvirðinguna – dansar Mammoni til dýrðar? Sannast sagna á ég hástemmdari hugmyndir um Þjóðleikhúsið en að það gerist dansidúkka fjármálavaldsins. Skyldi ég vera einn um þessa skoðun?