Fara í efni

DÁIST AÐ NORÐMÖNNUM

DV -
DV -

Birtist í DV 20.08.12.
Viðbrögðin við voðaverkunum í Osló og Útey í Noregi hinn 22. júlí í fyrra  þar sem alls 77 einstaklingar féllu fyrir hendi fjöldamorðingja hafa vakið margar siðferðilegar spurningar.
Í fyrsta lagi hafa sjálf réttarhöldin orðið mönnum umhugsunarefni. Var það rétt að hafa fjöldamorðingjann eins sýnilegan og raun bar vitni þar sem hann baðaði sig í kastljósi fjölmiðla daglangt vikum saman og virtist njóta þess, sperrtur og drýgindalegur?
Sjálfur hafði ég um þetta efasemdir í ljósi þess sem gerst hafði. Hitt sjónarmiðið heyrði ég líka frá Norðmönnum sem vel þekkja til, að með sýnileika réttarhaldanna hefði Anders Behring Breivik verið raunveruleikagerður - handjárnaður, ósköp smár í öllu tilliti ­- og þannig komið í veg fyrir að hann yrði að hulinni ógn, óþekktur maður, ósýnileg ófreskja.  Þetta fundust mér sannfærandi rök.

Brotalamir lagaðar

Eftir útgáfu skýrslu um viðbrögð yfirvalda við voðaverkunum í Osló og Útey hefur þessi umræða kviknað enn á ný, að þessu sinni snýr hún að brotalömum í kerfinu, hvernig lögregla og stjórnmálamenn eigi að axla ábyrgð og hvort og þá hvernig koma megi í veg fyrir voðaverk sem þetta.
Í skýrslunni kemur fram gagnrýni á boðleiðir og langan viðbragðstíma innan lögreglunnar, nokkuð sem lögreglan norska hefur að sjálfsögðu tekið til gagngerrar skoðunar og endurskipulagningar frá því atburðirnir áttu sér stað.  Í framhaldi af skýrslunni hefur lögreglustjórinn í Osló sagt af sér og heyra má ákall um að fleiri stígi til hliðar. Alltaf má deila um það hver réttu viðbrögðin eru að þessu leyti en sjálfur er ég ekki fylgismaður afsagnar vegna formsins eins.

Valdstjórnaraðferðin

Krafa um afsögn „yfirmanna" er ekki aðeins af siðferðilegum toga heldur byggir hún einnig á kröfum valdstjórnar-samfélags þar sem toppurinn á píramídanum á að svara fyrir þá sem neðar standa.
Í mínum huga felst hin raunverulega ábyrgð í því að laga þær  brotalamir sem komið hafa í ljós, eins og Norðmenn leitast við að gera og hafa gert. Öðru máli gegnir ef menn hafa gerst brotlegir við lög í sínu starfi. Slíkt á að sjálfsögðu að leiða til afsagna og uppsagna og eftir atvikum til réttarhalda.
Menn vilja ganga mislangt í kerfislægum lagfæringum. Það á við hér á landi ekkert síður en í Noregi. Sjálfum finnst mér eðlilegt að búa svo um hnúta að drápstól, byssur og sprengjur séu ekki auðveldlega aðgengileg. Tillögur að slíkum lagabreytingum hef ég lagt fram á Alþingi með frumvarpi til vopnalaga. Þá hef ég viljað efla heimildir til rannsókna á skipulegri glæpastarfsemi. En þar dreg ég mörkin. Að mínu mati eiga kerfislægar breytingar sér takmörk. Við þurfum að spyrja þeirrar grundvallarspurningar hversu langt eigi að vera hægt að ganga í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn voðaverkum.

Öllum refsað

Slíkar aðgerðir geta kallað á þannig eftirlit að þjóðfélaginu yrði umbylt í lögregluríki í neikvæðri merkingu þess orðs, þar sem allir yrðu undir eftirliti öllum stundum.
Þannig brugðust bandarísk yfirvöld við í forsetatíð George W. Bush í kjölfar hryðjuverkaárásanna á New York í september 2001. Þar var gripið til víðtækra eftirlitsaðgerða. Þannig varð refsingin allra.
Betur hugnast mér leið Norðmanna.  Frelsi og lýðræði var þeirra svar við ofbeldinu, ekki að loka samfélaginu og stórauka eftirlit. Voðaverkið skyldi ekki verða til þess að veikja lýðræðið heldur þvert á móti ætti að leitast við að styrkja það og efla; það mætti ekki undir neinum kringumstæðum láta þennan hryllilega atburð verða til þess að grafa undan opnu lýðræðissamfélagi.
Þess vegna skýtur skökku við þegar norska stjórnarandstaðan setti fram þá kröfu eftir að fyrrnefnd skýrsla kom út að forsætiasráðherrann, Jens Stoltenberg, segði af sér vegna málsins. Með slíku er verið að draga umfjöllun um hræðilegt mál ofan í hefðbundnar, pólitískar skotgrafir; fjöldamorðingi gerður að tæki til að „veikja" ríkisstjórn. Samkvæmt skoðanakönnunum er norska þjóðin þó á öðru máli. Yfirveguð viðbrögð norskra stjórnvalda, hafa þegar á heildina er litið vakið aðdáun fremur en hitt.

Ekki á kostnað lýðréttinda

En jafnan þegar áföll dynja yfir rísa upp öfl sem vilja nota tækifærið til að fá sínu framgengt. Kanadíski þjóðfélagsrýnirinn Naomi Klein skrifaði fræga bók um þetta, Shock Doctrine. Í þeirri bók voru menn á borð við George W. Bush í aðalhlutverki. Hann notaði hryðjuverk sem vöktu óhug til að efla eftirlitsþjóðfélagið á kostnað almennra lýðréttinda. Það hafa Norðmenn ekki látið henda sig. Þess vegna dáist ég að Norðmönnum.