Fara í efni

DAGUR ÁN SAMFYLKINGARINNAR Á ALÞINGI

Á Alþingi í dag var til umræðu frumvarp ríkisstjórnarinnar um rannsóknir á auðlindum í jörðu. Þetta er hitamál sem Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur beitt sér mjög gegn en iðnaðarráðherra hefur að sama skapi hamast fyrir samþykkt þess. Ágreiningurinn snýst um eftirfarandi grundvallaratriði: Ráðherrann vill fá heimild til að úthluta rannsóknarleyfum til virkjunarþyrstra orkufyrirtækja en VG vill á hinn bóginn að nú verði stopp sett á frekari áform í þágu erlendra álfyrirtækja sem bíða í röðum eftir að fá að versla við lítilþægustu ríkisstjórn í Evrópu. Þess vegna erum við andvíg frumvarpinu. Ef það yrði að lögum færði það Valgerði Sverrisdóttur völd sem við treystum þessum ráðherra ekki fyrir.

Lágmarkskröfur okkar varðandi þetta frumvarp eru tvær, að sjálfsögðu fyrir utan kröfu okkar um að ekki verði ráðist í frekari virkjanir fyrr en rammaáætlun um nýtingu vatnsafls hefur fengið skynsamlega umfjöllun og verið samþykkt á Alþingi sem framtíðarstefna um nýtingu auðlindanna.

Í fyrsta lagi viljum við að lagabálkar, sem þetta frumvarp er einn angi af séu til umfjöllunar í tengslum hver við annan. Reyndar leggjum við áherslu á að frumvarp sem boðað hefur verið um vatnsvernd verði fyrst samþykkt sem undirstöðulög á þessu sviði. Í þeim lögum er nefnilega ráðgert að kveða á um þætti sem lúta að náttúru- og umhverfisvernd. Slík lög sjáum við sem undirstöðu hinna frumvarpanna í þessari spyrðu, en þau kveða á um eignarhald og nýtingarrétt. Við héldum að Samfylkingin væri okkur sammála um þetta.

Önnur lágmarkskrafa, sem við gerum í tengslum við þetta frumvarp, er að þá aðeins komi það til framkvæmda að áður hafi verið settar reglur sem ráðherra skuli hafa til hliðsjónar þegar hann veitir rannsóknarleyfi. Nú kemur hins vegar í ljós að skipa á nefnd til að smíða reglurnar en þær skuli þó ekki koma til framkvæmda fyrr en næsta haust! Hvað verður Valgerður ráðherra búin að gera af sér áður?  Við héldum að Samfylkingin væri okkur sammála um þetta.

Í dag var Samfylkingin okkur reyndar sammála um þetta en eftir að tilteknir varnaglar höfðu verið slegnir inn í frumvarpið, sem hún hafði óskað eftir, lak hún niður í þessum grundvallarmálum og þingmenn hennar tíndust hver af öðrum út af mælendaskrá.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs er því vanur að standa náttúruvaktina einn innan veggja Alþingis – það gerðum við í Kárahnjúkadeilunni og í deilunni um Þjórsárver - og verður svo í þessu máli. Dagurinn var eins og flestir dagar að mörgu leyti ágætur – en hann varð án Samfylkingarinnar þegar á hann leið og nú um miðnættið er ljóst að hann mun teygja sig nokkuð langt inn í nóttina.