Fara í efni

Dagur aldraðra og samtök launafólks

Birtist í Mbl
Á fimmtudag, sem ber upp á 1. október, verður efnt til ráðstefnu um kjör lífeyrishafa sem samtök launafólks og Landssamband aldraðra standa fyrir í sameiningu. Dagsetningin er engin tilviljun því fyrsti október er dagur aldraðra. Þetta er forsmekkurinn að því sem koma skal en samkvæmt ákvörðun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna verður árið 1999 tileinkað öldruðum, kjörum þeirra og réttindabaráttu. Ef að líkum lætur munu aldraðir og samtök þeirra ekki láta sitt eftir liggja í réttindabaráttunni.

Kallar á sjálfsskoðun

Af þessu tilefni blæs verkalýðshreyfingin til ráðstefnu í samvinnu við samtök aldraðra þar sem spurt verður á hvern hátt það stendur upp á samtök launafólks að standa við bakið á öldruðum. Af hálfu verkalýðshreyfingarinnar hlýtur þetta að kalla á talsverða sjálfsskoðun.

Þá er fyrst að spyrja hvernig samtök launafólks skilgreini verksvið sitt hvað snertir kjara- og réttindabaráttu aldraðra. Verkalýðshreyfingin hefur jafnan skilgreint hlutverk sitt bæði þröngt og vítt, þröngt í þeim skilningi að berjast fyrir kjörum félagsmanna sinna og vítt þegar litið er til þess að verkalýðshreyfingin hefur að leiðarljósi að við búum í þjóðfélagi jafnaðar og jafnréttis þar sem hagur allra þegna þjóðfélagsins er tryggður.

Ef litið er á verkalýðsbaráttuna frá þessum tveimur sjónarhornum má segja að baráttan fyrir traustum lífeyrisréttindum launafólks sé kjarabarátta í þröngum skilningi hugtaksins. Í kjarasamningum í gegnum tíðina höfum við jafnan haft á oddinum að standa vörð um þessi réttindi og leitað allra leiða til að bæta þau.

Áfangasigur í lífeyrismálum

Það er mitt mat að sú réttarbót sem okkur tókst að ná nú nýlega í lífeyrismálum sé einn mikilvægasti sigur sem unnist hefur í kjarabaráttu launafólks á undanförnum áratugum.

Ef kjör eftirlaunafólks eru ekki tryggð að verulegu leyti með sjóðsmyndun til framtíðar, eins og gert er með lífeyrissjóðum launafólks, er ekki um annað að ræða en að slíkt verði gert með samtímagreiðslum úr ríkissjóði og kemur þá að sjálfsögðu til kasta skattborgarans hverju sinni. Þannig er barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir kjörum félagsmanna sinna jafnan nátengd hagsmunum þjóðfélagsins í heild sinni. Auðvitað verður alltaf um samspil að ræða. Til kjarajöfnunar í þjóðfélaginu kemur til kasta millifærslu- og tryggingakerfis á vegum hins opinbera. Ekki hefur okkur tekist að standa eins traustan vörð um þetta kerfi og um lífeyriskerfið, hvað þá efla það og bæta eins og æskilegt væri.

Pottur brotinn í tryggingakerfinu

Þegar skatta- og tryggingakerfið er skoðað kemur í ljós að þar er víða pottur brotinn og tel ég eitt brýnasta hagsmunamál aldraðra að fram fari allsherjarúttekt á þessu kerfi og að á því verði gerðar gagngerar breytingar í kjölfarið. Slíkri úttekt var lofað í upphafi þessa kjörtímabils og hóf endurskoðunarnefnd, sem byggði á býsna breiðum grunni, starf að þessu verkefni en nefndin var síðan látin lognast út af. Þessa vinnu þarf að hefja að nýju hið fyrsta og hraða henni eins og unnt er. Ég er sannfærður um að endurskoðun af þessu tagi muni leiða í ljós ranglæti sem jafnvel sparnaðarsöm stjórnvöld munu vilja leiðrétta.

Dæmi um ranglátan jaðarskatt

Um þetta mætti taka ótal dæmi. Eitt skal nefnt hér. Fyrir fáeinum árum var dregið verulega úr stuðningi hins opinbera við tannlæknaþjónustu. Sá niðurskurður bitnaði verulega á öryrkjum og öldruðum.

Við núverandi fyrirkomulag fær einstaklingur sem er með 28.000 krónur á mánuði eða minna í tekjur 75% af tannlæknakostnaði endurgreiddan, sá sem er með tekjur á bilinu 28.000 kr. til 79.000 fær 50% en sá sem er með tekjur þar fyrir ofan fær ekkert. Tannlækningar geta verið kostnaðarsamar og hefur þetta fyrirkomulag haft það í för með sér að öryrkjar og aldrað fólk hefur í mörgum tilvikum ekki efni á að leita sér lækninga. Samtök eldri borgara hafa ítrekað bent á að hér sé að finna dæmi um óviðunandi jaðarskatt. Vissulega er hægt að bæta úr þessu þegar í stað með lagabreytingu og næmi kostnaðurinn samkvæmt útreikningum ekki meira en 100 milljónum króna. Þetta er nefnt hér til dæmis um það sem kæmi í ljós við allsherjarendurskoðun á tryggingakerfinu og jaðarsköttum.

Hvert er okkar hlutverk?

En hvað getur verkalýðshreyfingin gert til þess að þrýsta á mál af þessu tagi. Hér gildir hið sama og um alla hópa; hreyfingin þarf að vera í sem allra nánustum tengslum við þá sem heitast á brennur. Efla þarf samstarf við samtök aldraðra og við þurfum að hlú betur að starfi lífeyrisþega innan okkar vébanda. Um árabil hefur verið starfandi samband lífeyrisþega aðildarfélaga BSRB sem hefur skilað ágætu starfi og sett mark sitt á stefnumótun heildarsamtakanna. Á þingum bandalagsins eiga lífeyrisþegar fulltrúa sem iðulega hafa látið mjög til sín taka um hagsmunamál aldraðra. Þá má geta þess að mörg stéttarfélög standa fyrir námskeiðahaldi sem tengjast starfslokum og ýmsu sem varðar eftirlaunaaldurinn.

Mikilvægasta hagsmunamál aldraðra, auk lífeyriskjaranna, er að tryggja góða og öfluga velferðarþjónustu. Fyrir þessu hafa okkar samtök barist af krafti og iðulega verið hvött til dáða af eldri félagsmönnum sem eðli máls samkvæmt eru oftar en ekki betur meðvitaðir um gildi þessarar þjónustu.

Stórátaks er þörf

Það er ömurlegt til þess að vita hve elliárin eru mörgu fullorðnu fólki erfið og langt í land með að þjóðfélagið rísi undir þeim skyldum sem því ber að axla gagnvart öldruðum. Hér þarf á næstu árum að gera stórátak á ýmsum sviðum sem snerta kjör aldraðra, hvort sem er á sviði húsnæðismála, heimahjúkrunar eða annarra þátta sem hér hefur verið vikið að.

Niðurstaðan er þessi: Samtökum launafólks ber að efla samstarf við samtök aldraðra bæði innan eigin vébanda og utan og sameinuð eigum við að setja á oddinn kröfuna um allsherjarúttekt á tryggingakerfinu og bætta þjónustu við aldraða á ýmsum sviðum sem hér hafa verið nefnd.

Í þessu sambandi og í tilefni af ári aldraðra, sem nú gengur senn í garð, væri hollt að hafa að leiðarljósi þá eindregnu hvatningu sem fram kemur í stefnumiðum Sameinuðu þjóðanna um málefni aldraðra. Þar segir að stuðlað skuli að því að aldraðir geti sem lengst „…haldið áfram þátttöku í þjóðfélaginu, tekið virkan þátt í stefnumótun og framkvæmd mála, sem hafa bein áhrif á afkomu þeirra, og deilt þekkingu sinni og hæfileikum með yngri kynslóðum.“