Fara í efni

DAGLEG ÁNÆGJA MILLJÓNA MANNA

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25/26.11.17.
Eldri Reykvíkingar muna án efa eftir þessari flennifyrirsögn sem slegið var upp á stærsta húsvegg Reykjavíkur, Nýja bíói, sem gnæfði innaf horni Lækjargötu og Austurstrætis: Dagleg ánægja milljóna manna.

Og hver skyldi hafa hlotið þennan heiðurssess í borgarmyndinni; hvað var það sem talið var veita milljónunum svo ríka ánægju að ástæða þótti til að slá því upp með þessum hætti?

Gleðigjafinn góði var Wrigley tyggigúmmí!  Tvær þrjár tyggjóplötur voru undir fyrirsögninni og svo áberandi voru þær að sérhvert gestkomandi auga gat ekki farið á mis við boðskapinn.

Eftir nokkurra ára sambýli við tyggigúmmíið hættum við Reykvíkingar að taka eftir því en jafnan þegar aðkomumenn spurðu út í veggmyndina var maður þó ekki meira samdauna henni en svo, að manni þætti það ekki óþægilegt að tyggigúmmíi væri gert svo hátt undir höfði. Sá grunur læddist nefnilega að okkur að auglýsingin segði meira um þá sem umbæru hana en um tyggigúmmíið sem auglýst var.

Svo var það líka hitt að í þá daga var enn reynt að sporna gegn því að auglýsendur kæmust alls staðar inn á gafl. Nú hafa allar slíkar varnir hrunið. Svo lítil er sjálfsvirðingin orðin, að jafnvel Ríkisútvarpið lætur sig hafa það að brjóta landslög til að hala inn nokkra seðla til viðbótar á ólöglegum áfengisauglýsingum og aðrir fjölmiðlar eru við sama heygarðshornið hvað það snertir, þó ekki allir, og látum við þá ógetið um ábyrgðarleysi þeirra sem skirrast ekki við að koma vöru sinni á framfæri með þessum hætti.

En erum við þá orðin alveg samdauna og meðvirk í auglýsingamennskunni? Getur verið að öllum finnist í lagi að láta Papsí eiga deildarkeppni í íþróttum, Alvogen KR völlinn og Wow flugfélagið kaupa sig inn á bringuna á börnunum sem stolt hlaupa um í félagsbúningunum sínum?

Um auglýsingar hugsa þau ekki frekar en húsveggurinn á Nýja bíói gerði um það sem á hann var málað. En berum við, hin fullorðnu, ekki einhverja ábyrgð? Og hverjir væru það þá sem ættu að axla þá ábyrgð? Hvað segjr Barnaverndarstofa, Umboðsmaður barna, forsvarsfólk íþróttafélaganna, hvað segjum við, þú og ég?

Enginn vill gera úr þessu hávaðamál og valda börnum sínum eða barnabörnum þar með leiðindum þó ekki væri fyrir annað en verða uppvís að því að eiga nöldursama foreldra, ömmu eða kannski aðallega afa. Hvað með Neytendasamtökin? Er þeim alveg sama hvernig er auglýst?  

Látum það vera að fullorðið íþróttafólk fallist á að hlaupa um með auglýsingar til eigin fjármögnunar þótt það breyti því ekki að heldur er það hvimleitt á að horfa upp á svo niðurlægjandi framfærslu.

Eflaust eru skoðanir eitthvað skiptar hvað fullorðin hlaupandi auglýsingaspjöld áhrærir. Öðru máli gegnir hins vegar um börnin. Ég held við hljótum flest að vera sammála um að þau er verið að misnota. Og eitthvað meira en lítið er að, ef við virkilega ætlum að láta það óátalið að börn séu látin hlaupa um sem lifandi auglýsingar fyrir Wow og gosdrykkjaframleiðendur, þessum fyrirtækjum eflaust til fjárhagslegs ávinnings og þar með til daglegrar ánægju.  En varla okkur hinum, eða hvað?