Fara í efni

DÆMISAGA ÚR BLÓMABÚÐ

Blóm - amma 2
Blóm - amma 2

Mín reynsla af blómabúðum er góð. Frábærar búðir, frábært afgreiðslufólk. Yfirleitt fel ég mig í hendur þess. Kannski með óljósar óskir en vitandi að í mínar hendur munu koma fallegir og fagmannlega útbúnir blómvendir.

En svo kom að því að ein amma vestur í bæ átti afmæli. Og tvær litlar ömmustelpur vildu færa henni blómvönd, og við viljum velja blómin afi!
Gott og vel,
 - og inn í blómabúðina fórum við.

Og þá gerðist það. Ég uppgötvaði að þarna stóðum við án þekkingar, hefðar, tísku, fagmennsku, algerlega sögulaus. En frjáls. Fáum þessar gulu rósir, mömmu finnst þær fallegar og ömmu hlýtur þá að finnast þær fallegar líka. Höfum einnig rautt sagði önnur og hvítt sagði hin. Svo skulum við taka eina bleika rós.
Ha,
sagði ég, hafði aldrei heyrt að maður blandaði saman rósum af ólíkri litagerð. En þær réðu, Vala og Sigga Olga. Og þar með voru brotnir niður múrar hefðarinnar.

Ekki svo að skilja að vöndurinn hafi orðið fallegri en fagfólksins, það er ekki mergurinn málsins. Fallegur var hann vissulega en fyrst og fremst var hann nýstárlegur eins og gerist þegar fólk losnar úr viðjum vanans.
Það er þarft að gerist og hressandi, alla vega annað veifið.