Fara í efni

Dæmisaga frá New York

Birtist í Mbl
Fyrir skömmu birti breska blaðið Observer fréttir af rafmagnsiðnaðinum í New York fylki. Rafmagnsfyrirtækin í New York hefðu að nýju verið sett undir almannastjórn og greindi Observer frá því að átta milljörðum dollara hefði verið varið til að kaupa hluti einkaðila og munu þetta vera umfangsmestu kaup opinberra aðila af þessu tagi. En hverju sætti þetta? Hvers vegna ákvað ríkið að kaupa hluthafana út og koma fyrirtækinu að nýju í almannaeign og undir almannastjórn? Þetta var gert vegna þess að eigendur hlutafélaganna höfðu nýtt sér fákeppnisaðstöðu til að keyra rafmagnsverðið upp úr öllu valdi og á sama tíma hafði þjónustunni hrakað enda soguðu eigendurinir mikið fjármagn út úr starfseminni í arðgreiðslur.

Þeir sem höfðu forgöngu um þessi kaup New York fylkis voru hægri sinnaðir repúblikanar. Þrátt fyrir póltískar skoðanir sínar hlýddu þeir kalli fyrirtækja og almennings sem var orðinn langþreyttur á að horfa upp á sukkið og vildi ekki sætta sig við stöðugt versnandi þjónustu.

Daginn sem New York fylki keypti rafmagnsveiturnar lækkaði rafmagnsverð í ríkinu um 19,1%. Og í frásögn Observer er klykkt út með því að segja að þetta sé dæmi um þróun sem sé að eiga sér stað í margvíslegri almannaþjónustu sem hafi verið einkavædd; nú séu uppi kröfur um að setja hana undir almannastjórn þannig að hún þjóni fólki en ekki fjármagni. Reynslan hafi einfaldlega sýnt að í fákeppnisfyrirtækjum nýti eigendur sér stöðu sína, taki óhóflegt fjármagn út úr fyrirtækjunum, forstjóraveldið tútni út og almenningur blæði.

Flokkur Finns Ingólfssonar

Hvers vegna er ástæða til að rifja þetta sérstaklega upp núna? Það er vegna þess að flokkur Finns Ingólfssonar iðnaðarráðaherra gefur því undir fótinn að markaðsvæðing íslenska raforkukerfisins sé lausnarorðið. Í kosningabæklingi Framsóknarflokksins segir að flokkurinn leggi á það áherslu, „…að skipulagi orkumála verði breytt með það að markmiði að innleiða samkeppni í greinina ...“ Þetta þarf að vísu engum að koma á óvart eftir að framsóknarmenn tóku að líta til Brussel um pólitíska leiðsögn því hjá Evrópusambandinu hefur verið gefin út fyrirskipun í þessum anda; fyrst beri að aðgreina framleiðslu og dreifingu á rafmagni, því verði lokið á árinu 2001, síðan taki markaðslögmálin völdin.

Sjálfsagt er að skoða opnum huga hvenig þessum málum yrði best fyrir komið hér á landi en óháð valdboði að utan. Meginmáli skiptir að við eigum jafnan kost á því að jafna orkuverð og að séð verði til þess að heimilin og almennir atvinnuvegir verði ekki þvingaðir til að niðurgreiða raforku til stóriðju. Vandinn við Brussel-valdið er hins vegar sá, að ekki er gerður greinarmunur á aðstæðum, sömu reglu er fylgt hvort sem um er að ræða fámenna þjóð eða milljónaþjóð, lítinn markað eða stóran og einu gildir hvað skynsemin býður.

Í fyrrnefndri stefnuskrá Framsóknarflokksins er samkvæmt venju haldið áfram að lofa jöfnun á raforkuverði og jöfnuði almennt enda þótt allir viti að með markaðsvæðingu kerfanna dregur úr möguleikum stjórnvalda til að beita jöfnunaraðgerðum. Yfir því mun ESA- dómstóllinn í Brussel vaka.

Vinstrihreyfingin-grænt framboð - lýðræðisins vegna

Auðvitað eru til aðrar leiðir og miklu vænlegri til framfara í skipulagi raforkumála og atvinnuuppbyggingu en felast í einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar og skammsýnni stóriðjustefnu hennar. Í aðdraganda kosninganna hefur Vinstrihreyfingin - grænt framboð efnt til funda og málþinga um valkosti í atvinnumálum. Þessi umræða hefur verið frjó og gefandi og aukið mönnum bjartsýni á þá möguleika sem við eigum til framfarasóknar. Það segir sig sjálft að brýnt er að á Alþingi séu raddir sem halda slíkum valkostum fram; stjórnmálaafl sem reynir að halda umræðunni opinni og frjórri þegar aðrir einblína á einkavæðingu og á tilskipanir frá Brussel. Þá þarf einnig að sjá til þess að sönnunarbyrðin sé jafnan hjá þeim sem vilja ganga á náttúruna eða reisa stóriðjuver.

Ef menn skoða huga sinn grannt efast ég ekki um að margir muni komast að þeirri niðurstöðu að gott sé og æskilegt að Vinstrihreyfingin - grænt framboð fái gott brautargengi í komandi kosningum, ekki aðeins vegna þess að framboðið teflir fram góðum hugmyndum heldur einnig vegna hins að þetta væri gott lýðræðisins vegna. Vinstrihreyfingin- grænt framboð er þegar allt kemur til alls eins konar öryggisventill í alltof sljóum og gagnrýnislausum heimi stjórnmálanna.