Fara í efni

BSRB vill tryggja persónuvernd

Birtist í Mbl. 26.11.2002
Aðalfundur BSRB sem haldinn var fyrir fáeinum dögum lagði áherslu á að settar verði reglur sem tryggi persónuvernd starfsmanna á vinnustöðum. Á mörgum vinnustöðum hefur hvers kyns eftirlit með starfsfólki færst í vöxt. Má í því sambandi m.a. nefna eftirlitsmyndavélar, skráningu á símtölum starfsmanna og ökusírita og ökulagssírita í vinnubílum og almenningsvögnum. Síðast en ekki síst horfa menn til upplýsinga sem safnað er um heilsufar starfsmanna.

Er nokkuð að óttast?

Hvað hefur heiðarlegur maður að óttast þótt fylgst sé með honum? Sem betur fer er ekki bannað að veikjast og reyndar hendir það okkur flest. Hvers vegna mega ekki liggja frammi skrár um slíkt? Hvað skyldi vera athugavert við að hafa ökusírita eða ökulagssírita í vinnubílum og almenningsvögnum? Hefur góður og samviskusamur ökumaður nokkra ástæðu til að óttast þótt fylgst sé með því hvert bílnum er ekið eða t.a.m. mælt hvernig hann hemlar eða tekur beygjur? Hvers vegna mætti ekki fylgjast með okkur á vinnustað með myndavélum? Er þetta ekki fyrst og fremst gert til þess að tryggja öryggi vinnustaðarins og þar með okkar eigið öryggi? Áfram má spyrja. Hvers vegna ætti atvinnurekandi ekki að hafa óheftan aðgang að tölvupósti starfsmanna og netnotkun? Þegar allt kemur til alls er hug- og vélbúnaðurinn á hans forræði og því eðlilegt að tækin séu aðeins nýtt í þágu þeirrar starfsemi sem þau eru ætluð til. Í framhaldinu hefur verið bent á að samskipti stofnana og fyrirtækja við viðskiptamenn og umbjóðendur færist nú í vaxandi mæli yfir í rafrænt form. Af þeim sökum sé nauðsynlegt að aðgengi að þessum samskiptum sé ekki heft, m.a. til að tryggja samfellu í starfseminni í veikindum eða fjarveru starfsmanna. Allt eru þetta góð og gild rök. En að fleiru er að hyggja.

Einkalífsrétt ber að virða

 Í fyrsta lagi er augljóst að starfsmenn eiga kröfu á því að njóta eðlilegs einkalífsréttar á vinnustað. Jafnvel þótt tölvubúnaður á vinnustað sé einvörðungu ætlaður í þágu þeirrar starfsemi sem þar er rekin hlýtur það óhjákvæmilega að gerast hjá öllum að nota hann til einhverra persónulegra samskipta. Varðandi ökulagssíritanna þá verðum við að hugleiða hvaða áhrif það hafi á starfsmenn, jafnvel þá sem rækja starf sitt afburða vel, að vera undir stöðugu eftirliti. Sama gildir um eftirlitsmyndavélar. Heiðarlegustu mönnum, sem hafa ekkert að fela, mislíkar að vera stöðugt undir eftirliti.

Fylgst með ferðum manna um vinnustaðinn

Á fyrrnefndum fundi BSRB lýstu trúnaðarmenn því hvernig farið væri að fylgjast með ferðum starfsmanna um stofnanir og fyrirtæki með rafrænni skráningu á því hvenær - eða jafnvel hvort - þeir opnuðu þær dyr sem farið er um með raflyklum. Alvarlegust er þó söfnun heilsufarsupplýsinga. Ekki eru alls staðar ljós skilin á milli starfsmannahalds í fyrirtækjum og trúnaðarlæknis. Í þeim löndum þar sem farið hefur verið út á þá braut að færa heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu inn á vinnustaðinn, eins og til dæmis hefur verið gert í Finnlandi, þykir ástæða til að setja strangar reglur um trúnað varðandi heilsufarsupplýsingar um starfsmenn. BSRB hefur beitt sér mjög gegn þessari finnsku aðferð og lagt áherslu á að einstaklingurinn eigi að njóta heilbrigðisþjónustu utan vinnustaðarins – að öðru leyti en því sem lýtur beint að vinnuumhverfinu. Margir vinnustaðir hér á landi hafa ráðið til sín trúnaðarlækni. Að því marki sem trúnaðarlæknir kemur fram fyrir hönd fyrirtækis gagnvart starfsmönnum í veikindum, t.d. til að sannreyna hvort veikindi eigi við rök að styðjast, þá telja samtökin brýnt að strangar trúnaðarreglur séu við lýði.

Skýrar reglur eru besta vörnin

Afstaða BSRB til þessara mála er annars vegar sú að setja þurfi skorður við hvers kyns eftirliti með starfsfólki á vinnustöðum; hins vegar að stuðla að því að settar verði skýrar reglur í þessum efnum þannig að öllum sé fullljóst að hverju þeir ganga. Tæknin til að fylgjast með gjörðum manna er til staðar. Viðfangsefnið er að setja reglur um hvernig hana megi nota.

 Þrátt fyrir öll þau rök sem kunna að vera fyrir því að nauðsynlegt sé að hafa eftirlit með starfsfólki á vinnustöðum þá er nú að því komið að við spyrjum í alvöru hvort við raunverulega viljum koma á fót eftirlitssamfélagi af þessu tagi. Mitt svar er afdráttarlaust neitandi. Heiðarleiki, vinnusemi og vandvirkni eru eðliskostir sem koma innan frá – af löngun til að standa sig í starfi. Þeir verða ekki framkallaðir með ótta við myndavélina eða ökulagssíritann í strætó.